Þróttmikið efnahagslíf – aukin eftirspurn eftir lánsfé
Það er góður gangur í íslensku efnahagslífi og við sjáum þess víða merki. Meðal annars í aukinni eftirspurn fyrirtækja eftir lánsfé, en þótt efnahagslífið standi vel er full ástæða til að fara með gát. Það er ekki síst á uppgangstímum sem rétt er ganga fram af varfærni, sérstaklega í fjármálastarfsemi.
Við höfum aukið okkar útlán en með markvissum og ábyrgum hætti. Það er sérstaklega ánægjulegt að gott samstarf ólíkra sviða bankans hefur skilað sér í fjölbreyttum og umfangsmiklum fjármögnunar- og ráðgjafarverkefnum. Þar höfum við sýnt þann styrkleika sem býr í breidd þjónustu- og vöruframboðs bankans. Samkeppni á íbúðalánamarkaði hefur hins vegar verið nokkuð mikil á árinu með stórauknum lánveitingum lífeyrissjóðanna, en Arion banki hefur ágætlega náð að verja sína sterku stöðu á þeim markaði.
Sterk grunnstarfsemi
Grunnstarfsemi bankans heldur áfram að styrkjast og jukust hreinar vaxtatekjur á árinu m.a. vegna aukinna vaxtaberandi eigna í kjölfar sölu bankans á hlutum í félögum í óskyldum rekstri og vegna virkrar lausafjárstýringar. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á að auka þóknanatekjur og hefur árangurinn verið góður.
HÖSKULDUR H. ÓLAFSSON
Bankastjóri
Þóknanatekjur hafa vaxið jafnt og þétt síðustu ár en lækka nú aðeins á milli ára. Árið 2016 er engu að síður næstabesta ár bankans hvað þóknanatekjur varðar. Þróun markaða hafði hins vegar neikvæð áhrif á afkomuna en bankinn á enn nokkuð af skráðum og óskráðum hlutabréfum. Að miklu leyti er um að ræða eignarhluti í félögum sem bankinn tók yfir á sínum tíma og hefur að mestu selt frá sér. Á árinu var unnið að því að draga úr þessari eign bankans og verður framhald þar á.
Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á að auka þóknanatekjur og hefur árangurinn verið góður
Fjármálaþjónusta er að breytast
Eftirspurn eftir bankaþjónustu er að breytast. Viðskiptavinir nýta nú í auknum mæli stafræna þjónustu bankans, eins og netbankann og Arion appið. Jafnframt hefur Arion banki tekið í notkun nýja kynslóð hraðbanka í útibúum bankans þar sem viðskiptavinir geta afgreitt sig sjálfir, hratt og vel, bæði hvað varðar innlagnir og úttektir en einnig varðandi greiðslu reikninga og millifærslur. Þessi þróun hefur óhjákvæmilega áhrif á þá þjónustu sem bankinn veitir í útibúum sínum. Á árinu var gripið til aðgerða til að laga starfsemi bankans að þessari breyttu eftirspurn. Meðal annars var starfsfólki fækkað um 46 á haustmánuðum. Slíkar aðgerðir eru ætíð erfiðar en voru nauðsynlegar vegna þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað á fjármálaþjónustu.
Stafræn framtíð
Bankinn hefur á undanförnum tveimur árum skoðað vel högun upplýsingatæknimála innan bankans. Skoðað hefur verið samstarf um rekstur við bæði innlenda og erlenda aðila. Högun þessara mála hjá bankanum er ágæt og góður grunnur til að takast á við framtíðina. Í janúar 2017 gerði bankinn svo útvistunarsamning við Nýherja sem er eitt fremsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins. Nýherji sér nú um rekstrarþátt upplýsingakerfa bankans en fyrirtækið er með mikla reynslu á þessu sviði og samnýtir bankinn þjónustu þess með öðrum fyrirtækjum sem felur í sér augljóst hagræði.
Áfram starfar öflugur hópur starfsfólks á sviði upplýsingatækni innan bankans en stærstur hluti þeirra sinnir hugbúnaðarþróun, m.a. þróun nýrra stafrænna lausna, en á árinu kynnti Arion banki nokkurn fjölda nýrra stafrænna lausna. Viðskiptavinir bankans geta nú til dæmis fengið staðfest greiðslumat á aðeins nokkrum mínútum á vef Arion banka og klárað umsókn um íbúðalán. Við munum halda ótrauð áfram á þessari braut enda óska viðskiptavinir okkar eftir því að geta sinnt sínum fjármálum þegar og þar sem þeim hentar. Við munum leggja okkur fram um að koma til móts við þeirra óskir og kynna þægilegar leiðir fyrir okkar viðskiptavini til að sinna sínum fjármálum.
Viðskiptavinir bankans geta nú til dæmis fengið staðfest greiðslumat á aðeins nokkrum mínútum á vef Arion banka og klárað umsókn um íbúðalán
Breitt þjónustuframboð – skaðatryggingar bætast við þjónustuframboð bankans
Mikilvægur þáttur í stefnu Arion banka er að veita viðskiptavinum sínum alhliða fjármálaþjónustu. Í útibúum bankans er nú lögð höfuðáhersla á faglega fjármálaráðgjöf þegar kemur að stærri ákvörðunum í lífi fólks eins og íbúðakaupum, sparnaði og tryggingum. Þar fer einnig fram þjónusta við lítil og meðalstór fyrirtæki og hefur hvert útibú bankans umtalsverðar heimildir til lánveitinga til sinna viðskiptavina.
Kaup Arion banka á tryggingafélaginu Verði, sem gengu í gegn á árinu, eru liður í að auka þjónustuframboð bankans. Með kaupunum bætast skaðatryggingar við þjónustuframboðið. Verður samstarf á milli félaganna um sölu trygginga m.a. í gegnum útibúanet Arion banka.
Nýtt útibú í Flugstöð Leifs Eiríkssonar – aukin hagræðing í útibúaneti
Á vormánuðum opnaði Arion banki útibú í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og tók þar með yfir alla fjármálaþjónustu á flugvellinum, einu stærsta markaðstorgi landsins. Mikill vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu hér á landi og er því um spennandi tækifæri að ræða fyrir bankann. Strax í ár sáum við góðan vöxt í þóknanatekjum á viðskiptabankasviði í tengslum við opnun útibúsins.
Nýja útibúið á Keflavíkurflugvelli er fyrsta nýja útibúið sem Arion banki opnar án þess að öðrum útibúum sé lokað eða þau sameinuð á nýjum stað. Frá árinu 2009 hefur bankinn fækkað útibúum um 45% og náð þannig fram umtalsverðri hagræðingu í útibúakerfinu. Hagræðing í útibúanetinu hélt áfram á árinu 2016 en nú með áherslu á að draga úr fermetrafjölda án þess að fækka útibúum. Þannig fluttu nokkur útibúa bankans í nýtt og minna húsnæði sem hentar betur áherslum bankans í dag. Á sama hátt og við leitumst við að samnýta með öðrum þegar kemur að upplýsingatækni leitast bankinn við að samnýta húsnæði með öðrum þar sem við á. Nýju útibúin eru öll hönnuð með fjármálaráðgjöf og nýjar stafrænar þjónustuleiðir í huga. Áfram verður haldið á þessari braut.
Frá árinu 2009 hefur bankinn fækkað útibúum um 45% og náð þannig fram umtalsverðri hagræðingu í útibúakerfinu
Þrátt fyrir að stofnað hafi verið til ýmissa nýrra tekjuskapandi verkefna á árinu líkt og á Keflavíkurflugvelli stendur starfsmannafjöldi nánast í stað á milli ára.
Fjárfestingarbanki ársins að mati Euromoney
Alþjóðlega tímaritið Euromoney valdi Arion banka sem besta fjárfestingarbankann á Íslandi árið 2016. Það var verðskuldað en fyrir utan að njóta sterkrar stöðu þegar kemur að miðlun verðbréfa, sérstaklega hlutabréfa þar sem bankinn var í forystu á árinu, sá Arion banki um einu nýskráningu hlutafélags á Aðallista Nasdaq Ísland á árinu. Arion banki hefur haft forystu í þeim efnum á undanförnum árum og séð um rúmlega 60% allra nýskráninga.
Mikilvæg dótturfélög – Valitor í sókn á erlendum mörkuðum
Dótturfélög Arion banka eru mikilvægur þáttur í stefnu og þjónustuframboði bankans. Auk tryggingarfélagsins Varðar eru sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir og greiðsluþjónustufyrirtækið Valitor mikilvæg dótturfélög. Stefnir er stærsta sjóðastýringafyrirtæki landsins og greiðsluþjónustufyrirtækið Valitor er í mikilli sókn í Danmörku og Bretlandi. Tekjur af alþjóðlegri starfsemi Valitor jukust um 50% á árinu 2016 og nema nú rúmlega 60% af heildartekjum fyrirtækisins. Félagið hefur um langt árabil haft umsvif á þessum mörkuðum og er að skapa sér áhugaverða stöðu. Með kaupum á Verði og fjárfestingu í erlendri starfsemi Valitor er Arion banki að styrkja enn frekar fyrirtækjasamstæðu bankans og búa sig undir framtíðina.
Tekjur af alþjóðlegri starfsemi Valitor jukust um 50% á árinu 2016 og nema nú rúmlega 60% af heildartekjum fyrirtækisins
Ábyrgð
Við sem störfum hjá Arion banka höfum frá upphafi lagt mikla áherslu á að starfa með ábyrgum hætti og styðja vel við viðskiptavini og íslenskt efnahagslíf. Á árinu var ný stefna á sviði samfélagsábyrgðar kynnt og verður hún höfð að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Á árinu 2017 verður unnið að innleiðingu stefnunnar. Mun hvert svið bankans huga að því hvernig það geti sem best starfað með ábyrgum hætti gagnvart ólíkum hagsmunaaðilum bankans, sem eru starfsfólk, viðskiptavinir, fjárfestar og samfélagið allt. Verður spennandi að sjá afrakstur þeirrar vinnu.
Á undanförnum árum hefur Arion banki lagt sérstaka áherslu á fjármálafræðslu og nýsköpun á Íslandi. Árið 2016 var þar engin undantekning. Haldnir voru fjölmargir fyrirlestrar fyrir viðskiptavini og áfram var stutt við Stofnun um fjármálalæsi. Við styðjum meðal annars við nýsköpunarstarf í grunnskólum og menntaskólum landsins. Einnig hefur bankinn gegnt lykilhlutverki í stofnun og þróun viðskiptahraðla fyrir frumkvöðla hér á landi. Bera viðskiptahraðlarnir Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík því vitni. Startup Reykjavík var enn á ný valinn besti viðskiptahraðallinn á Íslandi af Nordic Startup Awards. Arion banki fjárfesti á árinu í 17 sprotafyrirtækjum í gegnum hraðlana og hefur alls fjárfest í rúmlega 70 fyrirtækjum frá árinu 2012.
Arion banki fjárfesti á árinu í 17 sprotafyrirtækjum í gegnum hraðlana og hefur alls fjárfest í rúmlega 70 fyrirtæjum frá árinu 2012
Ójöfn samkeppnisstaða
Það eru vonbrigði að stjórnvöld hafi ákveðið að framlengja bankaskattinn svokallaða, sem átti að vera tímabundinn en er nú hluti af langtíma ríkisfjármálaáætlun. Bankaskattur er 0,376% skattur af heildarskuldum banka í árslok, að frádregnum skattskuldum, umfram 50 milljarða króna. Hér er því á ferðinni skattur á alla fjármögnun bankanna sem að stærstum hluta eru innlán viðskiptavina. Þannig er bankaskatturinn fyrst og fremst skattur á innlán almennings og fyrirtækja. Í raun má segja að kostnaður við erlenda fjármögnun hækki um fast að 20% vegna bankaskattsins. Sambærilegur skattur leggst ekki á aðrar innlendar atvinnugreinar né á erlenda banka sem eru með umsvif hér á landi og lána til íslenskra fyrirtækja. Hér er því á ferðinni sértæk skattlagning sem gerir bönkum erfitt um vik í samkeppni, bæði á innlendum markaði en einnig í samkeppni við erlend fjármálafyrirtæki á íslenskum markaði. Bankar keppa á innlendum markaði við lífeyrissjóði þegar kemur að veitingu íbúðalána en lífeyrissjóðir greiða hvorki tekjuskatt né fjársýslu- eða bankaskatt. Ljóst er að samkeppnisstaðan á þessum markaði er ekki jöfn og aðgerðir stjórnvalda fela í sér einkennilega íhlutun á samkeppnismarkaði. Alls greiðir Arion banki á árinu 2016 um fimm milljarða í skatta sem fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum greiða ekki og það gefur augaleið að slíkar álögur hafa umtalsverð óæskileg áhrif.
Spennandi ár fram undan
Árið 2016 var gott ár og náðist góður árangur á mörgum sviðum eins og að framan er getið. Ég vil þakka viðskiptavinum okkar fyrir samstarfið og fyrir traust í okkar garð. Einnig þakka ég öllu starfsfólki bankans fyrir þátt þess í góðum árangri á árinu.
Það er ljóst að Arion banki er í áhugaverðri stöðu og við horfum björtum augum til ársins 2017.