2016 – fjárfest til framtíðar
Árið 2016 var um margt ólíkt fyrri árum í starfsemi Arion banka, ekki síst árinu 2015 sem einkenndist af sölu yfirtekinna eigna og var eitt arðsamasta ár bankans. Það ár markaði tímamót. Með sölu á stærstu eftirstandandi eignum bankans í óskyldum rekstri lauk að mestu vinnu við málefni tengd fortíðinni.
Á móti einkenndist árið 2016 af bjartri sýn á framtíðina og vinnu við verkefni sem skipta miklu fyrir framtíðarþróun bankans sem alhliða fjármálafyrirtækis. Kaup Arion banka á tryggingafélaginu Verði, sem er eitt vinsælasta tryggingafélag landsins, gengu í gegn á árinu. Félagið er með um 12% markaðshlutdeild í skaðatryggingum hér á landi og verður góð viðbót við það vöruframboð sem Arion banki býður viðskiptavinum sínum. Á vormánuðum 2016 opnaði Arion banki nýtt útibú í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli og er eina fjármálafyrirtækið sem veitir flugfarþegum þjónustu í flugstöðinni. Við lítum á það sem mikið tækifæri að þjónusta þann mikla fjölda ferðamanna sem fer nú um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Að auki heldur dótturfélag Arion banka, Valitor sem sinnir greiðslumiðlun, áfram fjárfestingu í starfsemi fyrirtækisins í Danmörku og Bretlandi. Það eru spennandi tímar framundan.
MONICA CANEMAN
Stjórnarformaður
Stafræn bankaþjónusta í öndvegi
Um 70% viðskiptavina Arion banka nýta sér netbankann og 35% eru nú virkir notendur Arion appsins. Fjölgaði notendum appsins um tæp 30% á árinu 2016. Stafrænar þjónustuleiðir gegna lykilhlutverki í framtíðarsýn Arion banka og fjárfesti Arion banki á árinu 2016 umtalsvert í stafrænum lausnum. Er óhætt að segja að bankinn leiði þróun stafrænna fjármálalausna á Íslandi en bankinn kynnti fimm nýjar stafrænar lausnir á árinu og í upphafi árs 2017 hélt sú þróun áfram.
Stafrænar þjónustuleiðir gegna lykilhlutverki í framtíðarsýn Arion banka og fjárfesti Arion banki á árinu 2016 umtalsvert í stafrænum lausnum
Sem dæmi um nýjar lausnir sem kynntar hafa verið má nefna að nú geta viðskiptavinir Arion banka dreift greiðslukortareikningum á aðeins nokkrum sekúndum í Arion appinu. Viðskiptavinir geta einnig fengið staðfest greiðslumat vegna fasteignakaupa á aðeins nokkrum mínútum á vef bankans og jafnframt sótt um íbúðalán. Öll nauðsynleg skjöl eru sótt með rafrænum hætti og undirskriftir eru með sama hætti framkvæmdar með rafrænum skilríkjum. Markmið okkar er að gera okkar þjónustu betri og þægilegri fyrir okkar viðskiptavini. Við sjáum að viðskiptavinir okkar taka þessum nýjungum fagnandi, sem dæmi má nefna að helmingi fleiri viðskiptavinir bankans fengu greiðslumat í febrúar 2017 en í febrúar 2016.
Bætt kjör Arion banka á alþjóðlegum lánamörkuðum
Arion banki hefur á undanförnum árum verið leiðandi í sókn á erlenda lánsfjármarkaði. Árið 2016 var þar engin undantekning. Bankinn gaf út skuldabréf í evrum til breiðs hóps fjárfesta í tvígang. Í upphafi árs 2017 gaf bankinn svo út viðbótarútgáfu við síðari útgáfuna, sem nú nemur 500 milljónum evra. Hafa kjör bankans á erlendum lánsfjármörkuðum batnað mikið á undanförnum misserum sem er til marks um aukið traust skuldabréfafjárfesta til bankans og íslensks hagkerfis. Hér skiptir auðvitað miklu sá árangur sem hefur náðst í rekstri bankans og uppbyggingu íslensks efnahagslífs sem og þau mikilvægu skref sem tekin hafa verið við afnám gjaldeyrishafta. Í ljósi þess hækkaði Standard & Poor´s á árinu lánshæfismat bankans úr BBB-/A-3 í BBB/A-2, með jákvæðum horfum.
Hafa kjör bankans á erlendum lánsfjármörkuðum batnað mikið á undanförnum misserum sem er til marks um aukið traust skuldabréfafjárfesta til bankans og íslensks hagkerfis
Ábyrg fjármálastarfsemi
Á árinu 2016 samþykkti stjórn Arion banka nýja stefnu í málefnum sem snúa að samfélagsábyrgð. Eitt af markmiðunum með nýrri stefnu er að auka alla markmiðasetningu og fjölga mælikvörðum á þessu sviði. Samfélagsáherslum verður bætt við skýrslugjöf bankans. Í þessari ársskýrslu er stigið fyrsta skrefið í þá átt. Þar horfir bankinn annars vegar til UN Global Compact og hins vegar til atriða sem Alþjóðasamtök kauphalla hafa lagt áherslu á að skráð félög geri grein fyrir í sinni skýrslugjöf. Stór hluti af þessari vinnu er unninn í góðu samstarfi við íslenska nýsköpunarfyrirtækið Klappir. Á árinu 2017 verður áfram unnið að innleiðingu nýrrar stefnu bankans á sviði samfélagsábyrgðar.
Að gera réttu hlutina rétt
Á undanförnum árum hafa innviðir bankans verið styrktir sem og allt innra eftirlit og hefur bankinn hlotið viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti. Markviss fræðsla á sér stað innan bankans til að ganga úr skugga um að starfsfólk bankans sé meðvitað um þau lög og þær reglur sem gilda um starfsemina. Á árinu 2016 hófst sérstakt átak innan bankans þar sem starfsfólk var vakið til vitundar um hlutverk þess í áhættustýringu og innra eftirliti bankans. Þetta verkefni mun halda áfram á árinu 2017. Hver og einn starfsmaður gegnir mikilvægu hlutverki í þessum efnum, ekki síður en stjórn og stjórnendur. Það skiptir miklu að gera réttu hlutina en ekki síður að gera þá rétt.
Á undanförnum árum hafa innviðir bankans verið styrktir sem og allt innra eftirlit og hefur bankinn hlotið viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti
Fjárfestingarbankastarfsemi mikilvægur þáttur þjónustunnar
Mikilvægur þáttur í stefnu og viðskiptalíkani Arion banka er að bjóða viðskiptavinum sínum fjölbreytta fjármálaþjónustu – vera alhliða fjármálafyrirtæki. Liður í því er að bjóða upp á fjárfestingarbankaþjónustu. Á Íslandi er enn til staðar umræða um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, en fjárfestingarstarfsemi bankanna á árunum fyrir hrun leiðir til þess að fjárfestingarbankastarfsemi er talin mjög áhættusækin á Íslandi. Rétt er að hafa í huga að umræða um risavaxna evrópska og bandaríska banka sem starfa á heimsvísu á að afar takmörkuðu leyti við um íslenska banka sem í því samhengi eru smáir. Hér skiptir mestu að frá hruni hafa átt sér stað miklar breytingar á löggjöf og eftirliti sem gera þörfina fyrir aðskilnað litla sem enga. Tekið hefur verið á helstu álitaefnum og girt fyrir þær hættur sem til staðar voru. Nauðsynlegt er að umræðan um aðskilnað sé yfirveguð, upplýst og fordómalaus og byggi á þeim staðreyndum sem fyrir liggja.
Bankaskattur skerðir samkeppnisstöðu og kjör til viðskiptavina
Ljóst varð á árinu 2016 að bönkum er áfram ætlað að greiða skatt sem ekki leggst á aðrar innlendar atvinnugreinar eða erlenda banka. Hér vísa ég einkum til hins svokallaða bankaskatts sem leggst á skuldir fjármálafyrirtækja. Hér er á ferðinni sértæk skattlagning sem gerir bönkum erfitt um vik í samkeppni, bæði á innlendum íbúðalánamarkaði en einnig við erlend fjármálafyrirtæki um fjármögnun stærstu fyrirtækja landsins. Eðlilega þurfa bankarnir að mæta bankaskattinum með þeim mun meiri vaxtamun, hærri þjónustutekjum eða lækkun kostnaðar. Þannig verður því miður ekki hjá því komist að bankaskatturinn leiði til kostnaðarauka hjá viðskiptavinum bankanna og stuðli að hærra vaxtastigi í landinu, þó að hann hafi gert það að takmörkuðu leyti hingað til, enda átti skatturinn aðeins að vera tímabundinn. Öll rök fyrir framlengingu bankaskattsins byggja á veikum grunni. Mikilvægt er að þessi skattlagning verði endurskoðuð. Hugsanlega gæti fyrsta skrefið falist í því að fella bankaskatt niður af skuldum sem nýttar eru til fjármögnunar á lánum til íbúðakaupa.
Öll rök fyrir framlengingu bankaskattsins byggja á veikum grunni
Eignarhald Arion banka á tímamótum
Hluthafar Arion banka eru tveir, annars vegar Kaupþing ehf., sem á 87% hlut í bankanum í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil ehf., og hins vegar íslenska ríkið, sem á 13% í gegnum Bankasýslu ríkisins. Eins og kom fram í tilkynningu frá Kaupþingi og Arion banka í júní 2016 meta nú Arion banki og Kaupþing þá möguleika sem fyrir hendi eru varðandi eignarhlut Kaupþings í bankanum. Almennt hlutafjárútboð er meðal þeirra kosta sem verið er að skoða, en rétt er að taka fram að ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um framkvæmdina eða tímasetningu.
Frá upphafi hefur verið ljóst að núverandi eignarhald var ekki til frambúðar og verður spennandi að sjá hvað árið 2017 ber með sér í þessum efnum. Ljóst má vera að það er afar mikilvægt að vel takist til ekki aðeins fyrir bankann heldur einnig hið íslenska fjármálakerfi.
Sterk staða Arion banka
Arion banki hefur á undanförnum árum fylgt stefnu sem stjórn bankans markaði árið 2010. Stefna bankans byggir á tengslabankamódelinu og að veita viðskiptavinum alhliða fjármálaþjónustu. Dótturfélög gegna hér mikilvægu hlutverki. Í þeim hópi eru ein öflugustu fyrirtæki landsins á sviði greiðslumiðlunar og eignastýringar. Einnig tryggingafélagið Vörður sem er mikilvæg viðbót við vöruframboð bankans.
Vel hefur gengið að byggja upp banka sem í dag nýtur sterkrar stöðu, bæði fjárhagslega og á þeim mörkuðum sem hann starfar. Árið 2016 var gott ár þar sem stigin voru mikilvæg skref í uppbyggingu bankans til framtíðar. Ég þakka stjórnendum og starfsmönnum þeirra mikilvæga framlag til þess árangurs sem náðst hefur.