Mikill kraftur var í íslenska hagkerfinu á árinu 2016. Innlend eftirspurn var á miklum skriði, verðbólga var undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og atvinnuleysi lét áfram undan síga. Aukin umsvif innanlands endurspegluðust í örum innflutningsvexti og var framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar neikvætt. Engu að síður var talsverður afgangur af utanríkisviðskiptum, en aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn sótt landið heim. Fjárhagsleg staða heimilanna hélt áfram að batna, samhliða gríðarlegri kaupmáttaraukningu, og ríkissjóður var rekinn með afgangi. Veigamikil skref voru stigin í átt að losun fjármagnshafta og er þríþætt aðgerð stjórnvalda langt á veg komin. Nokkrir áhættuþættir eru þó til staðar, en þeir helstu snúa einkum að gengi krónunnar, sem styrktist mikið á árinu, og þeim áhrifum sem það kann að hafa á utanríkisverslun, verðbólgu og hagkerfið í heild sinni. Þá gætir sífellt meiri spennu á vinnumarkaði, farið er að nálgast þolmörk innlendra framleiðsluþátta ásamt því að alþjóðleg óvissa fer vaxandi.
Hagvöxtur sækir í sig veðrið
Þróttmikill vöxtur var í hagkerfinu á árinu 2016, sem var jafnframt sjötta árið á yfirstandandi hagvaxtarskeiði, og hefur hagkerfið ekki vaxið jafnmikið á einu ári frá því að fjármálakreppan skall á. Líkt og undanfarin ár var hagvöxturinn drifinn áfram af innlendri eftirspurn en bæði einkaneysla og fjárfesting voru á miklu flugi. Atvinnuvegafjárfesting var dráttarklárinn í sterkum fjárfestingavexti en íbúðafjárfesting lagði einnig hönd á plóg. Þrátt fyrir enn eitt metárið í komum erlendra ferðamanna til landsins var framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar neikvætt þar sem innflutningur jókst umfram útflutning. Útlit er fyrir að hagkerfið feti sömu braut árið 2017 og eru efnahagshorfur hér á landi talsvert betri en í öðrum þróuðum ríkjum.
Fregnir af batnandi kjörum launafólks voru fyrirferðamiklar á árinu en launa- og kaupmáttarþróun var einkar hagfelld. Þannig hækkuðu laun umtalsvert á árinu, en það sem meira máli skiptir er að kaupmáttur launa hefur aldrei verið jafnmikill, mælt út frá vísitölum Hagstofunnar, né aukist jafnhratt á einu ári. Kaupmáttaraukningin hefur vissulega stutt við meiri vöxt einkaneyslu en engu að síður virðast heimilin stíga varlega til jarðar þar sem hluta tekjuaukningarinnar er beint í sparnað eða niðurgreiðslu lána.
Misjafnt gengi eignamarkaða
Innlendir eignamarkaðir áttu misjöfnu gengi að fagna á árinu. Innlendur hlutabréfamarkaður átti erfitt uppdráttar og lækkaði úrvalsvísitala aðallista Nasdaq Ísland um 9% milli ára. Þetta er í fyrsta sinn frá endurreisn markaðarins í kjölfar efnahagshrunsins sem hann skilar neikvæðri ávöxtun milli ára. Viðskipti með hlutabréf héldu áfram að aukast en frá árinu 2010 hefur velta á hlutabréfamarkaði tuttugufaldast. Einungis eitt félag var tekið til viðskipta á árinu, Skeljungur, sem skráð var í síðasta mánuði ársins.
Fasteignamarkaðurinn hélt áfram að hitna og hefur raunverð fasteigna sjaldan verið hærra. Aukin umsvif í hagkerfinu, vaxandi kaupmáttur, lækkun á vöxtum íbúðalána og aukin lýðfræðileg eftirspurn eru allt þættir sem stutt hafa rækilega við markaðinn undanfarin misseri og munu væntanlega gera áfram. Þá hefur íbúðafjárfesting setið á hakanum og framboðshliðin því ekki tekið við sér sem skyldi, sem stutt hefur enn frekar við fasteignaverð. Fjárhagsleg skilyrði heimila hafa einnig haldið áfram að batna með minnkandi skuldum og hækkun eignaverðs.
Vaxandi spenna á vinnumarkaði
Staðan á vinnumarkaði ber þess keim að hagkerfið starfi nú í og yfir fullri framleiðslugetu en atvinnuleysi hefur komið hratt niður, atvinnuþátttaka er með mesta móti og skorts á vinnuafli er farið að gæta í flestum atvinnugreinum. Atvinnuleysi mældist að meðaltali um 3% árið 2016, tæpu prósentustigi lægra en árið áður, og er þar af leiðandi komið talsvert undir meðaltal sitt, og jafnframt undir það atvinnuleysisstig sem Seðlabankinn telur samræmast stöðugri verðbólgu.
Útlit er fyrir áframhaldandi kröftuga vinnuaflseftirspurn en niðurstöður ýmissa kannana gefa til kynna að fleiri fyrirtæki hafi í huga að fjölga starfsfólki frekar en fækka. Áframhaldandi innflutningur á vinnuafli, sem hingað til hefur létt á þrýstingi á innlenda framleiðsluþætti, er því nauðsynlegur til að koma til móts við vaxandi spennu á vinnumarkaði.
Mikill vöxtur í fjárfestingu
Kröftugur vöxtur var í fjárfestingu á árinu 2016. Sem fyrr var atvinnuvegafjárfesting leiðandi í miklum fjárfestingavexti, en hún jókst um 34,2% á fyrstu níu mánuðum ársins. Útlit er fyrir að atvinnuvegafjárfesting verði einnig driffjöðurin á þessu ári, með fjárfestingar í stóriðju, raforkuframleiðslu og ferðaþjónustu í broddi fylkingar. Ánægjulegt var að sjá íbúðafjárfestingu taka við sér á ný eftir dapurt gengi árið áður, en markaðurinn er farinn að kalla eftir auknu framboði til að mæta sívaxandi eftirspurn.
Það mætti segja að fyrst núna sé fjárfesting farin að ná sér almennilega á strik, en þetta er fyrsta árið frá því að fjármálakreppan skall á sem fjárfesting hefur náð langtímameðaltali sínu. Þetta er stór áfangi fyrir hagkerfið í heild sinni og skapar sterkari grundvöll fyrir hagvöxt og tekjuöflun í framtíðinni.
Sér fyrir endann á fjármagnshöftum
Stór skref voru stigin í átt að losun fjármagnshafta á árinu og er þríþætt aðgerð stjórnvalda langt á veg komin. Um mitt ár 2016 hélt Seðlabankinn síðasta gjaldeyrisútboðið fyrir eigendur aflandskróna og var markmið þess að losa um aflandskrónuvandann svokallaða. Þátttaka í útboðinu var dræm og var því aðeins lítið hlutfall af snjóhengjunni losað úr hagkerfinu. Niðurstaða útboðsins stendur þó haftalosun ekki fyrir þrifum þar sem aflandskrónurnar sem standa eftir eru girtar af. Síðar á árinu var svo síðasta skrefið í aðgerðum stjórnvalda tekið og í október tóku gildi lög sem auka frelsi einstaklinga og fyrirtækja til fjármagnshreyfinga til og frá landinu umtalsvert.
Matsfyrirtækin S&P og Moody‘s hækkuðu lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs í kjölfar kynningar stjórnvalda á áætlun um losun fjármagnshafta. Hækkanirnar byggja á þeim árangri sem náðst hefur við losun fjármagnshafta og skuldalækkunum ríkissjóðs. Hjá S&P er lánshæfi Íslands metið A-, A3 hjá Moody‘s og BBB+ fyrir erlendar langtímaskuldbindingar og A- fyrir innlendar langtímaskuldbindingar hjá Fitch. Fitch hefur breytt horfunum í jákvæðar á meðan aðrir matsaðilar telja þær stöðugar.
Afkoma ríkissjóðs nam tæplega 346 ma.kr. á árinu 2016 sem að mestu leyti má rekja til stöðugleikaframlaga slitabúanna, en þau eru áætluð um 339 ma.kr. Að frádregnum stöðugleikaframlögum nam því afgangur ríkissjóðs um 7 ma.kr. á árinu 2016. Samkvæmt fjárlögum 2017 er gert ráð fyrir nokkuð meiri afgangi, eða tæplega 25 ma.kr. og er því nokkur bati milli ára. Mikil áhersla hefur verið lögð á lækkun skulda ríkissjóðs og hefur mikið vatn runnið til sjávar. Áætlað er að skuldir ríkisins lækki í 39% af vergri landsframleiðslu í ár en hlutfallið nam 60% í fyrra. Til lengri tíma litið gera reglur um opinber fjármál ráð fyrir að skuldir ríkis og sveitarfélaga verði samtals undir 30% af vergri landsframleiðslu.
Ennþá viðskiptaafgangur þrátt fyrir hátt raungengi
Töluverður afgangur hefur verið af viðskiptum við útlönd frá árinu 2009, eða að meðaltali um 5,6% af vergri landsframleiðslu á ári. Það virðist þó hafa dregið lítillega úr afganginum árið 2016, en talsverður halli var á vöruviðskiptum, sérstaklega í samanburði við fyrri ár.
Á undanförnum árum hefur lágt raungengi stutt við útflutningsgreinar Íslands. Þessi þróun snerist við árið 2016 en þá hækkaði raungengið mikið og var að meðaltali 13% sterkara en árið áður. Er þetta mesta raungengishækkun á einu ári frá 2005 og skýrist hún að mestu leyti af nafngengishækkun krónunnar, þó að meiri verðbólga hér á landi en að meðaltali í okkar helstu viðskiptalöndum hafi einnig lagt sitt af mörkum. Innflutningsvöxtur á árinu dregur dám af hækkandi raungengi og hefur bæði vöru- og þjónustuinnflutningur aukist mikið, á meðan hægt hefur á vexti vöruútflutnings. Á móti vegur að viðskiptakjör bötnuðu nokkuð á árinu.
(1) Án reiknaðra tekna og gjalda innlánsstofnana í slitameðferð og án Actavis fram til ársins 2012.
Enn sem komið er er vart hægt að sjá að hærra raungengi sé orðið dragbítur á þjónustuútflutningi en ferðaþjónustan, sem er uppistaða þjónustuútflutnings, hélt áfram að vaxa og dafna og er nú orðin ein mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar. Hinn mikli vöxtur ferðaþjónustunnar endurspeglast í örum vexti þjónustuútflutnings, en hlutfall þjónustuútflutnings í heildarútflutningi Íslendinga var 55% á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 eftir að hafa verið á bilinu 42-43% á árunum 2010-2012. Enn eitt metið var slegið í komu erlendra ferðamanna þegar rúmar 1,7 milljónir ferðamanna sóttu landið heim. Það er 40% aukning frá fyrra ári og 280% aukning frá árinu 2010.
Gengi krónunnar hækkaði mikið á árinu og var það að meðaltali 11% sterkara en árið áður. Hækkunin stafaði af miklu gjaldeyrisinnstreymi sem rekja má til afgangs af viðskiptum við útlönd, þar sem ferðaþjónustan spilar lykilhlutverk, en einnig til aukinnar ásóknar erlendra aðila í innlendar eignir. Seðlabankinn stemmdi að einhverju leyti stigu við hækkun krónunnar með umtalsverðum gjaldeyriskaupum en alls keypti bankinn gjaldeyri fyrir 386 milljarða króna. Krónan styrktist gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum á árinu.
Verðbólga enn undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans
Verðbólga jókst lítillega á árinu 2016 en var engu að síður undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans allt árið. Eftir miklar launahækkanir og vaxandi spennu í hagkerfinu væntu þess flestir að talsvert verðbólguskot myndi fylgja í kjölfarið, en enn sem komið er hafa verðlagsáhrifin verið lítil og hinn margspáði verðbólgukúfur ekki litið dagsins ljós. Við lok árs stóð ársverðbólgan í 1,9% en sé húsnæðisliðurinn undanskilinn, þ.e. sá liður sem keyrt hefur verðbólguna áfram, var verðhjöðnun upp á -0,8%. Töluverð óvissa er um framhaldið en ljóst er að gengi krónunnar ræður miklu um verðbólguþróun fram á við.
Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarfasa undir loks sumars og lækkaði stýrivexti um 0,5 prósentustig í ágúst og um 0,25 prósentustig í desember. Meginvextir bankans stóðu því í 5% um áramót.