Valitor er framsækið þjónustufyrirtæki á sviði greiðslumiðlunar og greiðslulausna. Valitor starfar á alþjóðlegum vettvangi í nánu samstarfi við fjártæknifyrirtæki (fintech) í fremstu röð og sækir einnig beint á markaði í Bretlandi og á Norðurlöndum. Erlend umsvif félagsins hafa vaxið umtalsvert á undanförnum árum. Þannig jukust tekjur af alþjóðlegri starfsemi Valitor um 50% árið 2016 og nema nú rúmlega 60% af heildartekjum fyrirtækisins. Hér heima tengdist vöxturinn helst fjölgun erlendra ferðamanna og auknum umsvifum í hagkerfinu. Í heildina jukust tekjur félagsins um 23% milli ára þrátt fyrir styrkingu krónunnar.
Í árslok 2016 voru starfsmenn Valitor og dótturfélaga 263 talsins á starfsstöðum félagsins í Hafnarfirði, London og Kaupmannahöfn. Lykilþáttur í árangri Valitor er áhersla á þróun eigin hugbúnaðarlausna, bæði í færsluhirðingu og kortaútgáfu, en þannig nær Valitor að aðgreina sig á markaði þar sem mikil samkeppni ríkir. Þannig er Valitor meðal öflugustu hugbúnaðarfyrirtækja Íslands, en yfir 60 manns starfa við hugbúnaðarþróun hjá félaginu og fer ört fjölgandi.
Helstu verkefni 2016
Til að styðja við öran vöxt á árinu náðust mikilvægir áfangar í styrkingu innviða félagsins. Skalanleiki rekstrarins var áfram eitt helsta viðfangsefnið og markviss undirbúningur var lykillinn að öflugri þjónustu þegar mest reyndi á kerfi Valitor í lok árs, en nóvember og desember voru metmánuðir í veltu og fjölda færslna frá upphafi. Á „föstudeginum svarta“ nam aukning í færslufjölda um 115% milli ára. Þessi mikla verslunarhelgi er orðin að langstærstu viðskiptalotu Valitor árlega.
Nóvember og desember voru metmánuðir í veltu og fjölda færslna frá upphafi
Eitt af stærri verkefnum ársins var innleiðing á straumlínustjórnun (e: Lean management) í því skyni að auðvelda skilvirkan vöxt félagsins næstu ár. Í sama tilgangi var einnig nýtt stjórnskipulag Valitor kynnt í september, sem mun styðja við vöxt og arðsemi félagsins til framtíðar. Hluti af endurskipulagningunni er að byggja upp sölu- og markaðsstarf Global Partnerships í London, sem sér um erlenda samstarfsaðila Valitor, og að reka þá einingu sem breskt fjármálafyrirtæki. Í árslok veitti fjármálaeftirlitið í Bretlandi rekstrarleyfi þar í landi, svokallað „E-Money license“.
Salan á Visa Europe til Visa Inc. gekk eftir á árinu 2016. Umtalsverður ábati varð af sölunni, en stór hluti af þeirri fjárhæð tengist beint miklum vexti félagsins á undanförnum árum. Á liðnu ári var haldið áfram að framfylgja einbeittri stefnu Valitor, sem félagið hefur fylgt síðan 2012, um uppbyggingu á lykilmörkuðum í Bretlandi og á Norðurlöndum, sérstaklega á sviði netviðskipta.
Á liðnu ári var haldið áfram að framfylgja einbeittri stefnu Valitor, sem félagið hefur fylgt síðan 2012, um uppbyggingu á lykilmörkuðum í Bretlandi og á Norðurlöndum
Þegar horft er til einstakra viðskiptaeininga Valitor gekk starfsemin á Íslandi vel á árinu. Sterk króna hafði neikvæð áhrif á arðsemi Global Partnerships einingarinnar. Að teknu tilliti til þess gekk rekstur færsluhirðingar erlendis vel og skilaði 7 milljarða USD heildarveltu, samanborið við 3 milljarða USD 2015. Rekstur á útgáfu fyrirframgreiddra korta erlendis var undir væntingum, en síðasta ársfjórðunginn varð mikil breyting til hins betra. Viðskiptavinum Markadis á breska markaðnum fjölgaði umtalsvert á árinu og tókst sérlega vel til á síðasta ársfjórðungi sem lofar góðu um framhaldið. Rekstur AltaPay í Danmörku var talsvert lakari en vænst var en horfur eru mun betri fyrir 2017.
Vöruþróun
Á árinu 2016 var lögð áhersla á þróunarverkefni sem styðja við stærðarhagkvæmni, gæði þjónustu og sjálfvirkni. Í því fólst m.a. aukin sjálfvirkni í fjárstýringu og uppgjörum við alþjóðlega viðskiptavini.
Meðal nýrra vara sem markaðssettar voru á Íslandi var nýtt gjaldmiðlakort í íslenskum krónum fyrir erlenda ferðamenn og myntval í hraðbönkum (e: dynamic currency conversion), fyrir bæði Visa og MasterCard. Viðtökur voru afar góðar. Þá náðist mikilvægur áfangi varðandi debetkort í heildstæðri þjónustu við innlenda banka. Í desember kynnti Já.is í samvinnu við Valitor nýja möguleika í sölu á netinu – „Já takk! Smella og sækja“. Lausnin felur í sér greiðslulausn á ja.is, þar sem vara er pöntuð og greidd á netinu og síðan sótt í verslun.
Meðal nýrra vara og þjónustuþátta fyrir alþjóðamarkað eru Android Pay í Bretlandi sem er greiðslulausn í farsíma, og einnig lausn fyrir útlán til fyrirtækja í samstarfi við Capital on Tap. Í öðru lagi má nefna nýja lausn sem sameinar útgáfu og færsluhirðingu fyrir tryggingafélög í samstarfi við alþjóðafyrirtækið WEX.
Verkefni og tækifæri fram undan
Grunnhæfni Valitor felst í getu til að þróa og reka hugbúnaðarlausnir á sviði greiðslumiðlunar, auk framúrskarandi þjónustu. Þannig hefur Valitor jafnt og þétt byggt upp vörur og afar verðmæta þekkingu í gegnum árin, sem gerir félaginu kleift að aðgreina sig frá keppinautum og styrkja samkeppnishæfni sína í þeirri miklu samkeppni sem ríkir í greiðslumiðlun á alþjóðamarkaði.
Stefnir hf. er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 408 milljarða króna í virkri stýringu. Félagið er að fullu í eigu Arion banka og tengdra félaga og starfsstöðvar félagsins eru í höfuðstöðvum bankans. Eignir í stýringu félagsins eru í eigu fjölbreytts hóps fjárfesta, allt frá einstaklingum upp í stærstu fagfjárfesta landsins. Eignir sjóðfélaga eru ýmist í verðbréfa-, fjárfestingar- eða fagfjárfestasjóðum, auk þess sem Stefnir hefur gert samninga um stýringu á eignum nokkurra samlagshlutafélaga. Í árslok 2016 var 21 starfsmaður hjá Stefni.
Stefnir – Lausafjársjóður stækkaði um 70% á árinu
Breyting á eignum í stýringu felst helst í aukningu í sérhæfðum afurðum og skuldabréfum en hlutabréfasjóðir og sjóðir með áherslu á hlutabréf minnka nokkuð á árinu. Mikil ásókn hefur verið í Stefni – Lausafjársjóð sem einstaklingar og fyrirtæki nýta til ávöxtunar fjármuna til styttri og lengri tíma en sjóðurinn stækkaði um tæp 70% árinu. Mikill árangur hefur náðst hjá Stefni í aukinni tekjudreifingu með fjölbreytni í sjóðaframboði og góðri dreifingu eigna milli eignaflokka. Þetta er í samræmi við áherslur stjórnar og stjórnenda félagsins.
Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands hefur árlega veitt Stefni viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum frá árinu 2012
Starfsmenn félagsins og stjórn hafa lagt sig fram um að skilgreina kjarnahæfni félagsins og áherslur til næstu ára. Stefna félagsins er skýr og stjórn hefur sett félaginu árangursmarkmið, sem mæld eru með reglubundnum hætti. Stjórn Stefnis hefur tileinkað sér góða stjórnarhætti og hefur einsett sér að stuðla að og styðja við ábyrga hegðun og fyrirtækjamenningu innan Stefnis, til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðila félagsins. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands veitti Stefni á árinu 2016 í fjórða sinn viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum. Fyrst fékk Stefnir viðurkenninguna árið 2012 og var þá fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að hljóta nafnbótina. Stöðugt er unnið að viðhaldi og þróun stjórnarhátta hjá félaginu og er árleg endurnýjun viðurkenningarinnar liður í því ferli. Félagið birtir árlega á heimasíðu sinni stjórnarháttayfirlýsingu þar sem greint er frá starfsemi félagsins og áherslum til næstu missera. Mikil áhersla er lögð á gegnsæi og speglast það meðal annars í mikilli upplýsingagjöf á heimasíðu félagsins. Sú upplýsingagjöf er víðtækari en lög og reglugerðir mæla fyrir um.
Mikil áhersla er lögð á gegnsæi og speglast það meðal annars í mikilli upplýsingagjöf á heimasíðu félagsins
Stefnir hefur jafnframt árlega hlotið viðurkenningu frá Creditinfo sem eitt af framúrskarandi fyrirtækjum ársins frá árinu 2012 og það er ánægjulegt að félagið teljist til þeirra fyrirtækja sem efla íslenskt atvinnulíf.
Stefnir – Samval 20 ára
Sjóðir Stefnis eiga margir hverjir langa og farsæla ávöxtunarsögu. Einn þeirra er fjárfestingarsjóðurinn Stefnir – Samval sem fagnaði 20 ára samfelldri rekstrarsögu á árinu 2016. Þrátt fyrir sveiflur og skakkaföll á fjármálamörkuðum hefur stýring sjóðsins gengið vel til lengri og skemmri tíma litið. Sjóðurinn hefur víðar fjárfestingarheimildir og veitir það tækifæri til þess að ávaxta eignir í eignaflokkum sem vænlegastir þykja hverju sinni. Sjóðurinn er fjölmennasti sjóður landsins og eru sjóðfélagar í sjóðnum nú yfir 4.000 talsins. Margir þeirra hafa um árabil verið skráðir í reglulegan sparnað í sjóðnum.
Stefnir býður fjölbreytt úrval sjóða sem henta bæði einstaklingum og fagfjárfestum
Stefnir hefur verið í fararbroddi við þróun nýrra afurða. Breytilegt fjárfestingarumhverfi kallar á að sérfræðingar félagins séu reiðubúnir að mæta breyttum áherslum fjárfesta með nýjum fjárfestingarkostum og með breyttum áherslum við stýringu sjóða.
Skuldabréfasjóðir Stefnis eru grunnurinn í mörgum eignasöfnum einstaklinga og fagfjárfesta. Eins og fyrr hefur verið nefnt er eftirtektarvert að sjá hve Stefnir – Lausafjársjóður, sem inniheldur að mestu innlán fjármálafyrirtækja, hefur stækkað og sjóðfélögum fjölgað hratt.
Innlendir hlutabréfasjóðir hafa notið vinsælda síðastliðin ár sem fjárfestingarkostur samhliða endurreisn íslensk hlutabréfamarkaðar sem Stefnir hefur tekið virkan þátt í. Framtakssjóðir í rekstri félagsins hafa verið öflugt hreyfiafl á innlendum fyrirtækjamarkaði. Á árinu lauk vel heppnuðu hlutafjárútboði Skeljungs hf. þar sem félag í rekstri Stefnis seldi hlut sinn. Blandaðir sjóðir í rekstri Stefnis hafa einnig notið góðs af þátttöku í sérhæfðum fjárfestingum en með þeim hætti eykst aðgengi fjárfesta að fjárfestingarkostum sem alla jafna standa minni fjárfestum ekki til boða.
Innlendir hlutabréfasjóðir hafa notið vinsælda síðastliðin ár sem fjárfestingarkostur samhliða endurreisn íslensk hlutabréfamarkaðar sem Stefnir hefur tekið virkan þátt í
Stefnir hefur verið leiðandi í framtaksfjárfestingum og sérhæfðum afurðum á Íslandi um árabil. Þörfin fyrir fjölbreytta fjárfestingarkosti er augljós og hafa afurðir Stefnis mætt þessari eftirspurn með ábyrgum fjárfestingarkostum sem henta eignasöfnum fagfjárfesta. Stefnir rekur og stýrir bæði innlendum og erlendum framtakssjóðum og eru lífeyrissjóðir, tryggingarfélög og önnur fjármálafyrirtæki helstu eigendur sjóðanna.
Erlendir markaðir opnast með rýmkun heimilda til fjárfestinga erlendis
Sérstaða Stefnis í stýringu erlendra hlutabréfasjóða er umtalsverð meðal innlendra fjármálafyrirtækja. Teymi sérfræðinga sem fylgist með efnahagsþróun og skráðum erlendum fyrirtækjum er reynslumikið og nálgun þess á stýringu sjóða hefur vakið athygli um langt skeið. Nú þegar reglur um fjárfestingu í erlendum fjármálagerningum hafa verið rýmkaðar er tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki að dreifa áhættu með fjárfestingu í erlendum fjármálagerningum. Erlendir sjóðir í stýringu Stefnis er ákjósanlegur kostur til áhættudreifingar fyrir innlenda fjárfesta og sparifjáreigendur.
OKKAR líftryggingar hf. (OKKAR líf) er fyrsta líftryggingarfélagið sem hóf starfsemi á Íslandi. Félagið var stofnað árið 1966 af hópi íslenskra fjárfesta og bresku líftryggingarfélagi og hét þá Alþjóða líftryggingarfélagið hf. Meginhlutverk fyrirtækisins er að tryggja viðskiptavinum fjárhagslega vernd vegna sjúkdóma, örorku og andláts með hag þeirra og eigenda félagsins að leiðarljósi. Alls störfuðu 16 manns hjá félaginu í árslok 2016.
OKKAR líf hefur frá upphafi verið brautryðjandi í þróun persónutrygginga hér á landi. Sjúkdómatryggingar, barnatryggingar, örorkutryggingar og margs konar hóptryggingar eru meðal þess sem félagið hefur haft forystu um hér á landi.
OKKAR líf hefur frá upphafi verið brautryðjandi í þróun persónutrygginga hér á landi
Árið 2016 var félaginu hagfellt en ávöxtun fjáreigna var þó lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tryggingaleg afkoma var góð, arðsemi eigin fjár nam 9% og samsett hlutfall var 92,6%. Fjárfestingartekjur námu 6,5% af eigin iðgjöldum. Félagið náði markmiðum sínum í sölu á nýjum tryggingum á árinu. Salan á OKKAR Séreign sem kynnt var haustið 2012, í samvinnu við eignastýringu Arion banka, gekk áfram vel og einnig var söluaukning á öðrum tryggingum félagsins. Hlutfall trygginga sem sagt var upp hélt áfram að lækka og því varð umtalsverð aukning á fjölda skírteina í stofni félagsins.
Hlutfall trygginga sem sagt var upp hélt áfram að lækka og því varð umtalsverð aukning á fjölda skírteina í stofni félagsins
OKKAR líf hefur átt gott samstarf við Krabbameinsfélag Íslands undanfarin ár. Félagið styður við undirbúning skipulagðrar leitar að krabbameini í ristli á Íslandi en ákveðin fjárhæð af seldum tryggingum rann til Krabbameinsfélagsins.
Undanfarin ár hefur viðskiptavinum Arion banka boðiðst að kaupa líftryggingu við töku íbúðalána. Undir lok 2016 hófu fjármálaráðgjafar bankans sölu á meira úrvali persónutrygginga að undangenginni greiningu á tryggingaþörf viðskiptavina um leið og farið er í gegnum greiðslumat. Umsóknarferlið er að miklu leyti rafrænt sem fellur vel að þeirri þróun sem bankinn hefur lagt áherslu á í sinni þjónustu.
Verkefnin fram undan
Frá 1. janúar 2017 færðist eignarhald félagsins frá Arion banka til Varðar trygginga og á fyrsta ársfjórðungi 2017 verða OKKAR líf og Vörður líf sameinuð undir nafni Varðar lífs. Sameinað félag sem verður elsta og stærsta líftryggingafélag landsins flytur í húsakynni Varðar í Borgartúni 25 þar sem vátryggingastarfsemi undir merkjum Varðar verður samþættuð.
Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag sem býður tryggingalausnir fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg vátryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Fjöldi starfsfólks í árslok 2016 var 68 og eru viðskiptavinir félagsins um 36.000.
Starfsfólk Varðar hefur unnið markvisst að því á liðnum árum að efla þjónustu og gæði í öllu sínu starfi. Félagið hefur alltaf mælst hátt í Íslensku ánægjuvoginni og á síðustu tveimur árum mældist félagið hæst allra tryggingafélaga. Þetta sýnir að viðskiptavinir félagsins kunna að meta framlag starfsfólks og er til marks um að áherslur félagsins eru að skila árangri.
Vörður leggur mikla áherslu á góðan starfsanda og hefur félagið mælst með hæstu starfsánægju íslenskra tryggingafélaga í mælingum VR. Vörður hefur skýra sýn í jafnréttismálum og hefur sett sér jafnréttisstefnu sem tryggir jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum. Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis er í andstöðu við jafnréttisstefnu félagsins sem og jafnréttislög. Vörður hlaut jafnlaunavottun VR á árinu 2013, fyrst allra fjármálafyrirtækja.
Vörður hlaut jafnlaunavottun VR á árinu 2013, fyrst allra fjármálafyrirtækja
Afkoma af rekstri félagsins hefur verið góð á liðnum árum en kringumstæður í efnahagsuppsveiflu gera rekstur tryggingafélaga krefjandi og hefur Vörður ekki farið varhluta af því. Tjón hafa aukist umtalsvert frá árinu 2014 og hefur félagið þurft að grípa til aðgerða til að koma jafnvægi á reksturinn. Árið 2016 var að mörgu leyti hagstætt, viðskiptavinum fjölgaði mjög mikið. Afkoma á liðnu ári var heldur undir áætlun en engu að síður ásættanleg. Arðsemi eigin fjár nam 14,4% og samsett hlutfall var 102,6%.
Á árinu 2016 keypti Arion banki Vörð af færeyska bankanum BankNordik en BankNordik kom fyrst að félaginu sem eigandi á árinu 2009. í kjölfar kaupa Arion hófst vinna við að sameina dótturfélag bankans, Okkar líf, og Vörð líf og er ráðgert að sú sameining gangi í gegn á fyrsta ársfjórðungi 2017. Þegar sameining hefur gengið í gegn verður til öflugt líftryggingafélag sem verður enn betur í stakk búið til að þjóna sínum viðskiptavinum. Sameinað félag mun verða starfrækt í húsakynnum Varðar í Borgartúni.
Verkefnin fram undan
Sameining fyrirtækjanna Okkar lífs og Varðar lífs og innkoma öflugs söluteymis sem hefur starfað undir merkjum Tekjuverndar mun efla starf Varðar enn frekar og skapa mikil sóknarfæri. Samstarf við nýjan eiganda, Arion banka, eykur sóknarfærin enn frekar og skapar aukna möguleika á að þróa enn betri þjónustu við viðskiptavini.
Sameining fyrirtækjanna Okkar lífs og Varðar lífs og innkoma öflugs söluteymis sem hefur starfað undir merkjum Tekjuverndar mun efla starf Varðar enn frekar og skapa mikil sóknarfæri
Áhersla verður áfram lögð á mannauðsmál, viðskiptaþróun, sölumál og gæðamál, auk þess sem áfram verður unnið að styrkingu innviða félagsins.
Framtíðarhorfur
Horfur fyrir árið 2017 eru góðar, markaðsaðstæður eru vissulega krefjandi en félagið ætlar sér að nýta meðbyr sinn á markaði og tækifærin sem felast í nýju eignarhaldi til enn frekari sóknar og aukinnar þjónustu við sína viðskiptavini.