Fjármálasvið
Fjármögnun útvegar stöðuga fjármögnun á hagstæðum kjörum sem styrkir samkeppnishæfni bankans og gerir hann betur í stakk búinn til þess að þjónusta viðskiptavini sína.
Upplýsingatæknisvið
Við höfum einsett okkur að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi. Við ætlum að auka aðgengi viðskiptavina okkar að stafrænum vörum og þjónustu bankans. Upplýsingatæknisvið gegnir lykilhlutverki í að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Í lok árs 2016 voru 105 stöðugildi á upplýsingatæknisviði en í janúar 2017 fækkaði stöðugildum um rúmlega 20 með útvistun á rekstri upplýsingatæknikerfa til Nýherja. Við útvistunina var skipulagið einfaldað og samanstendur sviðið nú af fjórum deildum: hugbúnaðarþróun, stafrænni framtíð, tæknistjórn og viðskiptastjórn. Framkvæmdastjóri sviðsins er Rakel Óttarsdóttir.
Gríðarlegur hraði og framfarir í stafrænni tækni knýja nú áfram nýsköpun í heiminum sem aldrei fyrr. Þessar hröðu tækniframfarir hafa kraft til þess að umbreyta heilu iðngreinunum og opna óendanlega mörg ný tækifæri. Fyrirtæki þurfa að finna nýjar, óhefðbundnar og hraðvirkari leiðir til að fylgja þessari þróun ætli þau að lifa af. Bankar, eins og önnur fyrirtæki, þurfa að endurhugsa sína starfsemi og tæknin ræður þar ferðinni eins og á öðrum mörkuðum. Banki framtíðarinnar er ekki eins og banki í dag.
Fremsti stafræni bankinn
Okkar markmið er að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi. Við ætlum að sjálfvirknivæða og einfalda verklag þannig að það verði sem fæst handtök í öllum ferlum, bæði fyrir viðskiptavininn og starfsfólk bankans. Við ætlum að nýta gögn og greiningar til að taka góðar ákvarðanir og við ætlum að þróa snjallar og skapandi lausnir sem viðskiptavinum okkar finnst spennandi.
Með tækninni mætum við viðskiptavininum þegar hann vill og þar sem hann vill. Tæknin mun auðvelda okkur að þekkja viðskiptavininn, skilja hans þarfir og uppfylla þær. Við erum til staðar fyrir þá sem vilja sinna bankaviðskiptum heima eða í gegnum snjallsímann og við erum til staðar fyrir þá sem vilja koma til okkar og hitta okkur í eigin persónu.
Aukin áhersla á stafræna tækni
Til að undirstrika mikilvægi upplýsingatækni í þróun bankans og áherslur okkar á stafræna tækni til framtíðar var upplýsingatæknisvið skilið frá rekstrarsviði um mitt ár 2016 og er nú sjálfstætt svið með sæti í framkvæmdastjórn.
Á fyrri hluta árs settum við á fót verkefnahraðal undir heitinu stafræn framtíð sem keyrir áfram stafræn verkefni í 16 vikna lotum. Verkefnin eru unnin af þverfaglegum teymum sem einbeita sér að því að endurhanna eitt viðskiptaferli frá upphafi til enda á verkefnatímanum. Mikil áhersla er lögð á tíðar prófanir með viðskiptavinum allt frá fyrsta degi verkefnisins.
Undir lok árs gerðum við samstarfssamning við Nýherja um útvistun á rekstri upplýsingatæknikerfa bankans. Um leið og útvistunin mun skila umtalsverðri hagræðingu í rekstri, auknu öryggi og betri þjónustu gefur hún okkur svigrúm til að einbeita okkur að stafrænni þróun bankans til framtíðar.
Stafrænn banki
Fjölmargar nýjar stafrænar þjónustur fóru í loftið á árinu. Nú er boðið upp á að stofna til viðskipta við bankann á netinu með rafrænum skilríkjum, boðið er upp á fullgilt greiðslumat á nokkrum mínútum á vef bankans, á vörutorgi netbankans geta viðskiptavinir stofnað nýja innlánsreikninga og kreditkort, hægt er að millifæra á hvern sem er í Arion appinu og skipta kreditkortareikningi með einum smelli. Fram undan eru fleiri stafrænar þjónustur eins og hlutabréfaviðskipti á netinu, Einkaklúbbsappið, stafræn íbúðalán og heimildir á kreditkort og reikninga.
Skipulag
Hugbúnaðarþróun sér um þróun og viðhald stafrænna lausna bankans, samþættingu kerfa og uppbyggingu stafrænna gagna.
Stafræn framtíð er verkefnahraðall sem keyrir stafræn verkefni í 16 vikna lotum með fókus á endurhönnun viðskiptaferla frá upphafi til enda.
Tæknistjórn vinnur þvert á aðrar deildir sviðsins og ber ábyrgð á gæðamálum, öryggismálum, tæknilegri hönnun, vörustjórn og rekstri upplýsingakerfa í samstarfi við Nýherja.
Viðskiptastjórn sinnir verkefnastýringu þverfaglegra verkefna bankans, vinnur með viðskiptaeiningum við undirbúning verkefna og er ráðgefandi í þróun og notkun stafrænna lausna.
Rekstrarsvið
Rekstrarsvið styður við starfsemi bankans með það að markmiði að allt starfsfólk bankans fái nýtt færni sína til fulls í þágu viðskiptavina. Sviðið samanstendur af fasteignum og rekstri, viðskiptaumsjón og skjalastjórn. Í árslok 2016 voru 143 stöðugildi á rekstrarsviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Sigurjón Pálsson.
Markmið fasteigna og reksturs er að tryggja öllu starfsfólki gott vinnuumhverfi sem styður það í verkefnum þess. Deildin sér um allt húsnæði bankans sem er samtals um 30 þúsund fermetrar, sér um fullnustueignir og sölu á þeim, rekur veitingaþjónustu fyrir starfsfólk og viðskiptavini og sér um ýmsa aðra þjónustu fyrir starfsfólk.
Viðskiptaumsjón ber ábyrgð á frágangi viðskipta, s.s. útlána-, innlána- og verðbréfaviðskipta. Í því felst m.a. að tryggja rétta skráningu í kerfi bankans og fylgni við reglur um útfyllingu skjala. Sérfræðingar viðskiptaumsjónar veita framlínu ráðgjöf ásamt því að vera í beinu sambandi við erlend og innlend fjármálafyrirtæki og þegar við á viðskiptavini bankans. Megináherslur ársins 2016 voru að auka skilvirkni ferla, efla samskipti við viðskiptavini til að stytta boðleiðir og bæta innra gæðaeftirlit sviðsins ásamt því að samþætta starfsemi lífeyrisþjónustunnar við viðskiptaumsjón en hún bættist í hópinn á seinni hluta ársins 2015.
Skjalastjórn hefur umsjón með og stýrir skipulagi á skjölum bankans, bæði rafrænum og pappírsskjölum. Meginverkefni ársins 2016 var áframhaldandi innleiðing nýs skjalastjórnunarkerfis bankans, yfirferð á ferlum bankans til að tryggja rétta vistun skjala og að auka vægi rafrænna skjala á kostnað útprentaðra skjala.
Lögfræðisvið
Á lögfræðisviði er lögð áhersla á sjálfstæða lögfræðiráðgjöf, vandaða skjalagerð og faglega innheimtu krafna. Lögð er áhersla á tengsl við aðrar deildir bankans til að tryggja að lögfræðingar komi nægilega snemma að þeim álitaefnum sem til úrlausnar eru. Lögfræðisvið skiptist í fjórar einingar: Endurskipulagningu eigna og málflutning, lögfræðiinnheimtu, lögfræðiráðgjöf og lögfræði- og skjaladeild útlánasviða. Í árslok 2016 voru 42 stöðugildi á lögfræðisviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Jónína S. Lárusdóttir.
Í endurskipulagningu eigna og málflutningi er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra viðskiptavina sem eru í greiðsluvandræðum, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða lögaðila. Þá er unnið að fullnustu og frágangi krafna Arion banka sem eru í lögfræðilegri innheimtu, s.s. aðför, fullnustu eigna og gjaldþrotaskiptum. Jafnframt er þar sinnt málflutningi fyrir bankann. Deildin hefur umsjón með nauðasamnings- og niðurfellingarnefndum bankans. Í deildinni er ennfremur unnið með fullnustueignir bankans, þ.e. frágangi eftir uppboð og leigusamninga þeim tengdum.
Í lögfræði- og skjaladeild útlánasviða er unnið að ráðgjöf og skjalagerð fyrir útlánasvið bankans auk skjalagerðar fyrir þá lögaðila sem bankinn hefur sérstaka samninga við. Innan deildar eru tveir hópar, annars vegar ráðgjöf og skjalagerð fyrir viðskiptabankasvið vegna einstaklinga og neytendalána og samninga viðskiptabankasviðs, en hins vegar ráðgjöf og lánaskjalagerð vegna fyrirtækja og lögaðila.
Í lögfræðiinnheimtu er unnið að allri innheimtu fyrir bankann; fruminnheimtu, milliinnheimtu, lögfræðiinnheimtu og kröfuvakt. Meðal annars er séð um útsendingu innheimtubréfa, samskipti og samningagerð við viðskiptavini og lögfræðilegar innheimtuaðgerðir með atbeina dómstóla og sýslumanna.
Í lögfræðiráðgjöf er unnið að ráðgjöf fyrir tilteknar deildir bankans, s.s. eignastýringarsvið, markaðsviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf, skrifstofu bankastjóra, markaðssvið, fjármálasvið og stoðsvið bankans, auk þess sem veitt er yfirsýn og upplýsingar um nýja löggjöf, dóma og ákvarðanir og fyrirmæli stjórnvalda. Þá annast lögfræðiráðgjöf ráðgjöf á sviði samkeppnismála og skattamála.
Skrifstofa bankastjóra
Undir skrifstofu bankastjóra falla meðal annars, fyrir utan bankastjóra sjálfan, aðstoðarmenn/ritarar, sérfræðingar í viðskiptaþróun, forsvarsmaður Arion banka í nýsköpun og umboðsmaður viðskiptavina. Jafnframt tilheyrir mannauður, markaðsdeild, samskiptasvið og regluvarsla skrifstofu bankastjóra. Í árslok 2016 voru 40 stöðugildi á skrifstofu bankastjóra.
Þannig felast verkefni sviðsins meðal annars í almennri aðstoð við bankastjóra og utanumhaldi vegna stjórnar- og nefndarfunda. Viðskiptaþróun sinnir þróun og stefnumótun bankans til lengri og skemmri tíma og verkefnum á sviði nýsköpunar, eins og Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Í verkahring umboðsmanns viðskiptavina er greining og eftirfylgni á málum einstaklinga og fyrirtækja. Stór hluti af eignum bankans í skráðum og óskráðum félögum færðist frá fjárfestingarbankasviði til skrifstofu bankastjóra á árinu.
Mannauður sameinar kraftar starfsmannaþjónustu og A plús teymis bankans, sem ber ábyrgð á straumlínustjórnun bankans. Mannauður er samstilltur og framsækinn hópur sem hefur skýra sýn og þekkingu til að miðla stefnu bankans. Mannauður er stefnumiðaður samherji sem styður við starfsemi bankans með því að tengja saman fólk og lykilferla með upplifun viðskiptavina að leiðarljósi.
Mannauður veitir ráðgjöf og stuðning við val á starfsfólki, auk þess að efla leiðtogafærni og hæfni starfsfólks. Mannauður styður við starfsþróun, hvetur til stöðugra umbóta og aukinnar starfsánægju.
Hlutverk markaðsdeildar er að styðja við uppbyggingu langtíma viðskiptasambands við viðskiptavini bankans með viðeigandi markaðssetningu og boðmiðlun. Markaðssetningin er í takt við stefnu og framtíðarsýn bankans og felst í markaðssetningu á vörum og þjónustu, viðburðastjórnun, innra markaðsstarfi og samfélagsábyrgð ásamt því að hlúa að ímynd og vörumerki bankans.
Samskiptasvið heldur utan um samskipti og almanna- og fjárfestatengsl bankans gagnvart ytri markhópum ásamt boðskiptum við innri markhópa.
Regluvarsla bankans hefur það hlutverk að tryggja með skilvirkum fyrirbyggjandi aðgerðum að Arion banki starfi í hvívetna í samræmi við lög, reglur og góða viðskiptahætti og stuðla að góðri fyrirtækjamenningu hvað þetta varðar. Nánar um regluvörslu Arion banka hér.