Eignastýringarsvið
Eignastýringarsvið Arion banka, ásamt dótturfélögum, er leiðandi í eignastýringu á Íslandi með um 1.055 milljarða króna í stýringu. Sviðið skiptist í eignastýringu fagfjárfesta, einkabankaþjónustu, fjárfestingarþjónustu og rekstur lífeyrissjóða. Eignastýring Arion banka stýrir fjármunum fyrir hönd viðskiptavina samkvæmt fyrirfram ákveðinni fjárfestingarstefnu hvers og eins. Jafnframt annast sviðið sölu á sjóðum Stefnis hf. til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og fagfjárfesta sem og sölu á sjóðum alþjóðafyrirtækja. Til viðbótar sinnir sviðið rekstri lífeyrissjóða. Á eignastýringarsviði voru 33 stöðugildi í árslok 2016. Framkvæmdastjóri sviðsins er Margrét Sveinsdóttir.
Fjölbreytt þjónusta til að mæta ólíkum þörfum
Eignastýringarsvið sérhæfir sig í að veita viðskiptavinum með ólíkar fjárfestingarþarfir fjölbreytt úrval ávöxtunarmöguleika. Áhersla er lögð á breitt vöru- og þjónustuframboð þar sem hagsmunir viðskiptavina eru ávallt hafðir að leiðarljósi. Eignastýringarsvið hefur á að skipa starfsfólki með áratuga reynslu og þekkingu af fjármálamörkuðum og eignastýringu. Lögð er áhersla á persónulega þjónustu sem byggist á góðri samvinnu við viðskiptavini. Þannig er lagður grundvöllur að traustu langtímasambandi við viðskiptavini og fjárhagslegum ávinningi þeirra.
Lögð er áhersla á persónulega þjónustu sem byggist á góðri samvinnu við viðskiptavini. Þannig er lagður grundvöllur að traustu langtímasambandi við viðskiptavini og fjárhagslegum ávinningi þeirra.
Eignir í stýringu hjá samstæðunni jukust um 5,8% á árinu eða alls 58 milljarða króna og skýrist vöxturinn einkum af innflæði nýrra fjármuna frá núverandi og nýjum viðskiptavinum. Mikil aukning var í sölu verðbréfasjóða Stefnis hf. í netbankanum sem gefur til kynna áhuga almennings á verðbréfasjóðum og vilja þeirra til að nýta sér rafrænar leiðir.
Eignir í stýringu hjá samstæðunni jukust um 5,8% á árinu eða alls 58 milljarða króna og skýrist vöxturinn einkum af innflæði nýrra fjármuna frá núverandi og nýjum viðskiptavinum
Samfélagsábyrgð í verki
Eignastýring Arion banka er þátttakandi á verðbréfamörkuðum fyrir hönd viðskiptavina. Nauðsynlegt er að þátttakan sé með ábyrgum hætti því verðbréfamarkaðir gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Liður í því er að veita góða þjónustu með rafrænum hætti. Þannig geta viðskiptavinir átt viðskipti með sjóði þegar þeim hentar, þar sem þeim hentar og um leið lágmarkað ferðir milli staða.
Eignastýring Arion banka sýnir samfélagsábyrgð í verki með margvíslegum hætti:
- Fræðslufundir um lífeyrismál voru haldnir um allt land fyrir starfandi fólk, námsmenn og lífeyrisþega.
- Markvisst var unnið að því að minnka pappírsnotkun, m.a. með því að dreifa yfirlitum rafrænt og senda rafræn fréttabréf í stað fréttabréfa á pappír.
- Vandað fræðsluefni, m.a. um nýtingu lífeyrissparnaðar til lækkunar íbúðalána eða sem útborgunar á fyrstu fasteign.
- Aukin áhersla á reglulegan sparnað til uppbyggingar eigna.
Áframhaldandi góður árangur Frjálsa lífeyrissjóðsins
Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, hélt áfram velgengni sinni og var valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í sínum stærðarflokki af hinu virta fagtímariti Investment & Pensions Europe (IPE). Jafnframt var Frjálsi lífeyrissjóðurinn tilnefndur sem besti lífeyrissjóður Evrópu og var það í fyrsta sinn sem sjóðurinn hefur fengið slíka tilnefningu. Undanfarin ár hefur sjóðurinn hlotið tíu alþjóðleg verðlaun.
Áframhaldandi ávinningur viðskiptavina
Í kjölfar afléttingar fjármagnshafta eru fram undan áhugaverðir tímar með auknum fjárfestingartækifærum fyrir fjárfesta. Jafnframt eru miklar breytingar fram undan á íslenskum verðbréfamarkaði sem tengjast innleiðingu MiFID II tilskipunar Evrópusambandsins og MiFIR-reglugerðarinnar. Eignastýring Arion banka mun áfram leitast við að skapa og finna fjárfestingarkosti fyrir viðskiptavini til að ávaxta fjármuni þeirra eins og best verður á kosið. Unnið verður sem fyrr að því að skapa ávinning fyrir viðskiptavini með góðri ávöxtun, faglegum vinnubrögðum og markvissri áhættustýringu, ávallt með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.
Fyrirtækjasvið
Fyrirtækjasvið veitir stærri fyrirtækjum landsins alhliða fjármálaþjónustu og sérsniðnar lausnir sem þjóna þeirra þörfum hverju sinni. Sviðið þjónar fyrirtækjum landsins og býður lausnir á sviði fjármögnunar, innlána, greiðslumiðlunar og virðisaukandi rafrænnar þjónustu. Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins eiga farsælt viðskiptasamband við fyrirtækjasvið og hafa verið viðskiptavinir bankans um áraraðir. Góð samskipti og þekking á þörfum viðskiptavina er grunnur að farsælu viðskiptasambandi til langs tíma. Í árslok 2016 voru 28 stöðugildi á fyrirtækjasviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Freyr Þórðarson.
Um fyrirtækjasvið
Starfsemi fyrirtækjasviðs skiptist í þrjú sérhæfð atvinnugreinateymi og teymi lánaráðgjafar og greiningar. Atvinnugreinateymin eru verslun og þjónusta, fasteignir og orka og sjávarútvegur. Í hverju teymi starfa þjónustustjóri og viðskiptastjórar sem annast viðskipti viðskiptavina við bankann hvað varðar fjármögnun og aðra þjónustu. Hlutverk lánaráðgjafar og greiningar er að veita ráðgjöf og aðstoð við lánveitingar, áhættugreining og samningagerð, og annað er tengist fyrirgreiðslu til viðskiptavina. Sviðið á í góðu samstarfi við önnur svið bankans svo sem við viðskiptabankasvið, bíla- og tækjafjármögnunardeild bankans, markaðsviðskipti, og fyrirtækjaráðgjöf, en viðskiptastjórar fyrirtækjasviðs gegna lykilhlutverki við ráðgjöf og milligöngu um lausnir og alhliða bankaþjónustu í þágu viðskiptavina.
Helstu verkefni og viðburðir ársins
Arion banki studdi við margvísleg verkefni viðskiptavina sinna á árinu en einnig var ánægjulegt að sjá verkefni sem höfðu áður verið fjármögnuð taka sín fyrstu rekstrarskref á árinu. Samstarf fyrirtækjasviðs við viðskiptavini bankans einkenndist af auknum fjárfestingum viðskiptavina, enda fer styrkurinn í íslensku atvinnulífi vaxandi. Samkeppnin var nokkur á árinu, en eftirspurn eftir lánsfjármagni var einnig veruleg, og umfram það framboð lánsfjár sem er til staðar í hagkerfinu. Fyrirtækjasvið lagði áherslu á góða samvinnu við núverandi viðskiptavini bankans í sínum viðfangsefnum.
Samstarf fyrirtækjasviðs við viðskiptavini bankans einkenndist af auknum fjárfestingum viðskiptavina, enda fer styrkurinn í íslensku atvinnulífi vaxandi
Sjávarútvegsteymið þjónustar stærstu útgerðarfélög landsins en viðskiptavinahópurinn samanstendur af öflugum félögum sem stunda veiðar, fiskvinnslu, laxeldi og sölu á sjávarafurðum. Teymið leiðir einnig útfærslu á stefnu bankans um varfærin skref í fjármögnun á alþjóðlegum sjávarútvegsmörkuðum með það að markmiði að auka fjölbreytileika viðskiptavina sem starfa í sjávarútvegi, og þannig dreifa áhættu útlánasafns bankans í greininni. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa undanfarin ár verið að fjárfesta í greininni, en á árinu tók bankinn þátt í að fjármagna uppsjávarfrystihús, kaup og byggingu skipa sem og vöxt fyrirtækja í aflaheimildum og fiskvinnslu. Fyrirtækjasvið hefur verið í samvinnu við erlenda banka um fjármögnun nokkurra verkefna en slík samvinna hefur áður gagnast viðskiptavinum vel með lægri fjármögnunarkostnaði þeirra.
Fasteignaverkefni voru áberandi á árinu líkt og fyrri ár. Þar má helst nefna framkvæmdir við stærri fjölbýlishús, stækkun fasteignasafna viðskiptavina bankans og framtíðarverkefni sem lúta að uppbyggingu hótela á höfuðborgarsvæðinu. Fasteigna- og orkuteymið fylgdi nokkrum langtímaverkefnum eftir á árinu, m.a. í innviðauppbyggingu ýmiss konar, orkufrekum iðnaði og lyfjaframleiðslu. Teymið hefur verið í góðu samstarfi við fjárfestingarbankasvið við útfærslu á sérsniðnum lausnum umfangsmikilla verkefna viðskiptavina bankans og nýtt styrk og vöruframboð bankans þeim til hagsbóta.
Teymið hefur verið í góðu samstarfi við fjárfestingarbankasvið við útfærslu á sérsniðnum lausnum umfangsmikilla verkefna viðskiptavina bankans og nýtt styrk og vöruframboð bankans þeim til hagsbóta
Verslunar- og þjónustuteymið þjónustar stærri viðskiptavini í hinum ýmsu geirum, s.s. framleiðslu og iðnaði, ferðaþjónustu, upplýsingatækni, fjárfestingum og vátryggingastarfsemi. Á árinu vann teymið m.a. að því að styðja við vöxt viðskiptavina bankans, bæði hérlendis og erlendis, ásamt því að bjóða nýja viðskiptavini velkomna. Teymið jók umsvif sín m.a. í ferðaþjónustu með tilkomu nýrra öflugra ferðaþjónustufyrirtækja í viðskiptavinahópinn. Lögð var áframhaldandi áhersla á þjónustu, aðra en útlán, sem endurspeglast í auknum þóknanatekjum sviðsins og bankans.
Ábyrgð gagnvart samfélaginu
Í þjónustu sinni lætur bankinn sig ýmis málefni varða sem snerta atvinnulífið og þar með viðskiptavini bankans og starfsfólk leggur sitt af mörkum til upplýstrar umræðu og ákvörðunartöku. Starfsmenn fyrirtækjasviðs voru virkir þátttakendur á árinu á ráðstefnum um ferðaþjónustu, fasteignir, sjávarútveg og straumlínustjórnun ásamt því að taka þátt í vinnu bankans í mótun stefnu um samfélagsábyrgð, vera bakhjarl Iceland Geothermal og standa fyrir málstofu um úthlutun aflaheimilda.
Á árinu 2017 mun fyrirtækjasvið skerpa á hlutverki sviðsins þegar kemur að samfélagsábyrgð Arion banka. Meðal annars mun starfsfólk sviðsins áfram taka þátt í að móta og styðja við stefnu bankans á sviði ábyrgra fjárfestinga og lánveitinga.
Starfsemi
Vaxtaberandi eignir sviðsins voru rúmir 248 milljarðar kr., þar af voru útlán um 243 ma.kr*, í árslok 2016 eða sem nemur 35% af heildarútlánum Arion banka og 66% af útlánum til fyrirtækja. Nýjar lánveitingar voru umtalsverðar á árinu en virði lánabókar sviðsins í erlendum myntum tók breytingum til lækkunar vegna gengisáhrifa. Fyrirtækjasvið tók þátt í fjölbreyttum verkefnum viðskiptavina sinna ásamt því að mynda ný tengsl en um 6% af lánabók sviðsins eru lán sem veitt voru til nýrra viðskiptavina bankans.
Vaxtaberandi eignir sviðsins voru rúmir 248 milljarðar kr., þar af voru útlán um 243 ma.kr*, í árslok 2016 eða sem nemur 35% af heildarútlánum Arion banka og 66% af útlánum til fyrirtækja
*Miðað við móðurfélagsreikning.
Lánasafn sviðsins endurspeglar breiddina í íslensku atvinnulífi að miklu leyti og er það í takt við stefnu sviðsins. Stærstu atvinnugreinar í lánasafni fyrirtækjasviðs eru fasteignir og tengdur rekstur, 34%, sjávarútvegur, 22%, verslun og þjónusta, 14%, og fjarskipta- og upplýsingatækni, 10%. Á síðustu árum hefur umfang ferðaþjónustu aukist verulega á Íslandi, hvort sem litið er á hlutfall af vergri landsframleiðslu eða útflutningstekjum, hlutdeild í hagvexti, fjölgun starfa eða fjárfestingum og hefur atvinnugreinin tekið sæti meðal stærri atvinnugreina landsins. Þar sem um mikla vaxtargrein er að ræða hefur fyrirtækjasvið tekið varfærin skref í að auka útlán til ferðaþjónustu og vigtar atvinnugreinin tæplega 4% af vaxtaberandi eignum sviðsins og í heild 6,7% af heildarútlánum bankans til lögaðila.
Lánasafn sviðsins endurspeglar breiddina í íslensku atvinnulífi að miklu leyti og er það í takt við stefnu sviðsins
Árið fram undan
Árið 2017 hefst af sama krafti og árið 2016 endaði. Hagvísar eru flestir jákvæðir og nokkur bjartsýni ríkir í atvinnulífinu. Eftirspurn eftir lánsfé er áfram sterk og fá teikn á lofti um að þar hægi á í náinni framtíð. Á árinu má reikna með áframhaldandi verkefnum á sviði orkuiðnaðar og áframhaldandi þróun í sjávarútvegsfjárfestingu. Ferðaþjónustu vex ásmegin og þaðan má reikna með ýmiss konar ruðningsáhrifum í atvinnulífinu. Gengi íslensku krónunnar gæti orðið áskorun fyrir þær greinar sem finna mest fyrir áhrifum hennar. Ennfremur verður áhugavert að fylgjast með hvort fjárfesting erlendra fjármuna muni skila sér í atvinnuuppbyggingu í hagkerfinu, en einnig hvernig samtal um einkafjármögnun opinberra verkefna mun þróast.
Eftirspurn eftir lánsfé er áfram sterk og fá teikn á lofti um að þar hægi á í náinni framtíð
Við þessar aðstæður reynir á yfirvegaða ákvörðunartöku í lánsfjárveitingu og skynsamlegt val verkefna, viðskiptavinum og bankanum til hagsbóta. Þar skiptir máli að horfa til langs tíma og meta áhrif verkefna á hagkerfið og atvinnulíf. Núverandi viðskiptavinir Arion banka verða í brennipunkti fyrirtækjasviðs, þegar kemur að vali verkefna, en einnig þegar kemur að þjónustuframboði.
Fjárfestingarbankasvið
Meginhlutverk fjárfestingarbankasviðs Arion banka er að leiða saman kaupendur og seljendur á fjármálamarkaði og veita fyrirtækjum og fjárfestum ráðgjöf um uppbyggingu rekstrar og efnahags. Þannig eru helstu þjónustuþættir fjárfestingarbankasviðs miðlun verðbréfa og gjaldeyris, fyrirtækjaráðgjöf og greining. Hjá sviðinu voru 30 stöðugildi í lok árs 2016. Framkvæmdastjóri sviðsins frá febrúar 2016 er Iða Brá Benediktsdóttir.
Á fjárfestingarbankasviði starfar reynslumikill hópur. Verkefni fjárfestingarbankasviðs á árinu 2016 voru fjölbreytt og má þar nefna skráningu Skeljungs á Aðalmarkað Nasdaq Iceland sem og söfnun fjármagns fyrir framkvæmdir við væntanlegt Marriott Edition hótel við Hörpu. Markaðsviðskipti voru með mesta hlutdeild í miðlun hlutabréfa auk þess sem vel gekk í miðlun skuldabréfa og gjaldeyris. Þessi velgengni var staðfest þegar Arion banki var valinn besti fjárfestingarbankinn á Íslandi árið 2016 af alþjóðlega fagtímaritinu Euromoney.
Arion banki var valinn besti fjárfestingarbankinn á Íslandi árið 2016 af alþjóðlega fagtímaritinu Euromoney
Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka veitir ráðgjöf við kaup, sölu, samruna og yfirtöku á fyrirtækjum og stærri eignarhlutum ásamt því að vera leiðandi umsjónaraðili með skráningum verðbréfa á Nasdaq Íslandi. Meðal viðskiptavina fyrirtækjaráðgjafar eru mörg af stærstu fyrirtækjum á Íslandi og flestir helstu fjárfestar landsins. Teymið býr yfir mikilli reynslu og fjölþættri þekkingu og er áhersla lögð á fagmennsku og vönduð vinnubrögð.
Meðal viðskiptavina fyrirtækjaráðgjafar eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins og flestir helstu fjárfestar á Íslandi
Líkt og undanfarin ár var árið 2016 viðburðaríkt í starfsemi fyrirtækjaráðgjafar. Meðal verkefna má nefna að á fyrri hluta ársins gengu endanlega í gegn kaup Reita fasteignafélags á fasteignasafni í eigu sjóða reknum af Stefni og hafði fyrirtækjaráðgjöfin milligöngu þar um og veitti ráðgjöf við þau kaup. Um mitt ár var gengið frá sölu á um 80% hlut í Kolufelli, sem er félag sem mun halda utan um framkvæmdir og byggingu íbúða við Hörpu. Lokið var við söfnun hlutafjár auk lánsfjár vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Marriott Edition hótel við Hörpu og veitti bankinn ráðgjöf þar um auk lánsfjármögnunar. Í október voru tímamót þegar endanlegt samþykki fyrir kaupum bankans á Verði tryggingum lágu fyrir en fyrirtækjaráðgjöf veitti bankanum ráðgjöf í því ferli. Í lok árs hafði fyrirtækjaráðgjöf umsjón með skráningu Skeljungs á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi og hefur hún á síðustu tveimur árum séð um allar þær fjórar skráningar sem hafa verið á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi. Þar að auki hafði fyrirtækjaráðgjöf umsjón með reglubundnum skuldabréfaútgáfum Reita fasteignafélags og Orkuveitu Reykjavíkur.
Í lok árs hafði fyrirtækjaráðgjöf umsjón með skráningu Skeljungs á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi og hefur hún á síðustu tveimur árum séð um allar þær fjórar skráningar sem hafa verið á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi
Horfur í efnahagslífi hér á landi eru góðar og hyggst fyrirtækjaráðgjöf eftir sem áður vera leiðandi í því að veita fyrirtækjum og fjárfestum faglega ráðgjöf og styðja þannig við áframhaldandi uppbyggingu íslensks atvinnulífs og fjármagnsmarkaða. Undanfarin ár hefur bankinn lagt sitt af mörkum við uppbyggingu verðbréfamarkaðar með því að hafa forgöngu um að skrá átta félög af þeim 13 sem skráð hafa verið á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi. Jafnframt hefur fyrirtækjaráðgjöf veitt ráðgjöf og kynnt markaðnum ýmsar nýjungar á skuldabréfamarkaði. Á árinu 2017 verður haldið áfram á sömu braut og stoðir fjölbreytts atvinnulífs hér á landi styrktar með því að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu.
Markaðsviðskipti sinna miðlun fjármálagerninga til innlendra og erlendra viðskiptavina bankans. Með fleiri skráningum á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi hefur hlutabréfamarkaðurinn öðlast aukna dýpt. Arion banki hefur sterka stöðu í veltu verðbréfa á Aðalmarkaði Nasdaq Íslandi og var til að mynda með mestu hlutdeild kauphallaraðila á hlutabréfamarkaði árið 2016. Hlutabréfamiðlun kom að skráningu Skeljungs á aðalmarkað Nasdaq og skuldabréfamiðlun kom meðal annars að frumsölu skuldabréfa fyrir Garðabæ, Reiti og Orkuveitu Reykjavíkur. Viðskipti á gjaldeyrismarkaði hafa verið að aukast ásamt því að vöruframboðið hefur verið að breikka. Arion banki hefur verið leiðandi í að bjóða viðskiptavinum sínum upp á vörur til að verja áhættu.
Arion banki var með mestu hlutdeild kauphallaraðila á hlutabréfamarkaði árið 2016
Megináhersla markaðsviðskipta hefur verið að veita stækkandi viðskiptavinahópi góða þjónustu og aðgang að framúrskarandi þekkingu og kerfum. Áhersla næstu missera mun áfram vera á vöruþróun, til að bjóða viðskiptavinum fleiri tækifæri til ávöxtunar og áhættudreifingar. Á næstu vikum verður viðskiptavinum Arion banka boðin ný lausn sem er beinn markaðsaðgangur í gegnum netbanka, þar sem einstaklingum gefst kostur á að eiga beint viðskipti með innlend hlutabréf í Kauphöll.
Markaðsviðskipti Arion banka hafa viðhaldið góðum tengslum vegna miðlunar með erlend verðbréf og sérfræðingar markaðsviðskipta muna halda áfram að veita viðskiptavinum aðstoð við erlend verðbréfaviðskipti.
Greiningardeild fjallar um íslenskt efnahagslíf og spáir í framvindu efnahagsmála, þróun hagstærða og afkomu félaga og atvinnugreina.
Greiningardeild gefur út lesefni og kynningar, tekur þátt í fundum og svarar fyrirspurnum. Efni greiningardeildar er ýmist ætlað almenningi, afmörkuðum hópi viðskiptavina eða starfsfólki bankans. Greiningardeild byggir efni sitt ætíð á opinberum upplýsingum. Deildin leggur áherslu á þjónustu við viðskiptavini Arion banka í samstarfi við aðrar deildir bankans.
Eitt af markmiðum greiningardeildar er að efla og bæta opinbera umfjöllum um íslenskt efnahagslíf. Greiningardeild er mönnuð sérfræðingum sem hafa menntun, áhuga og reynslu sem nýtist við umfjöllun efnahagsmála. Þeir hafa hæfni og metnað til þess að greina aðalatriði frá aukaatriðum og setja efni sitt fram á auðskiljanlegan hátt. Greiningardeild hefur fullt sjálfstæði frá öðrum deildum bankans.
Eitt af markmiðum greiningardeildar er að efla og bæta opinbera umfjöllum um íslenskt efnahagslíf. Greiningardeild er mönnuð sérfræðingum sem hafa menntun, áhuga og reynslu sem nýtist við umfjöllun efnahagsmála.
Sem dæmi um starfsemi deildarinnar á árinu 2016 má nefna að deildin stóð fyrir fimm opnum morgunfundum og ráðstefnum í höfuðstöðvum Arion banka þar sem m.a. úttektir á fasteignamarkaði og ferðaþjónustu voru kynntar ásamt hagspá deildarinnar. Þá kynntu sérfræðingar deildarinnar efni sitt á fjölmörgum fundum með viðskiptavinum Arion banka víða um land. Á árinu gaf deildin út 83 Markaðspunkta og 104 greiningar á skráðum félögum.
Framtíðarhorfur
Fjárfestingarbankasvið hefur gegnt viðamiklu hlutverki í uppbyggingu íslensks fjármálamarkaðar síðustu ár. Sviðið hefur verið leiðandi í endurreisn íslensks verðbréfamarkaðar og veitt mörgum af stærstu félögum landsins liðsinni við að endurskipuleggja fjárhagsstöðu sína. Í hlutfalli af landsframleiðslu hefur skuldastaða íslenskra fyrirtækja ekki verið jafn lág lengi. Sama þróun hefur átt sér stað hjá heimilum landsins og skuldastaða ríkissjóðs hefur batnað verulega í kjölfar uppgjöra slitabúa gömlu bankanna, samhliða örum hagvexti.
Fjárfestingarbankasvið hefur gegnt viðamiklu hlutverki í uppbyggingu íslensks fjármálamarkaðar síðustu ár. Sviðið hefur verið leiðandi í endurreisn íslensks verðbréfamarkaðar og veitt mörgum af stærstu félögum landsins liðsinni við að endurskipuleggja fjárhagsstöðu sína.
Áherslu á lækkun skulda hefur fylgt varfærni í fjárfestingum. Þó að merki séu um að fjárfesting, sérstaklega í atvinnulífinu, sé að taka við sér er öllum ljóst að veruleg þörf fyrir nýfjárfestingu hefur byggst upp, ekki síst í innviðum samfélagsins. Á næstu árum má reikna með að fjárfestingar taki við sér. Þar má vænta þess að kostir verðbréfamarkaðar nýtist til fjármögnunar bæði fyrirtækja og opinberra aðila. Nærtækt er að leita þar fyrirmynda frá nágrannalöndum okkar ásamt því að byggja á eigin reynslu.
Það eru góð skilyrði fyrir uppbyggingu verðbréfamarkaða að nú fari saman hagstæð fjárhagsstaða fyrirtækja og fjárfesta annars vegar og veruleg uppsöfnuð fjárfestingarþörf hins vegar. Í samanburði við nágrannalöndin er íslenskur hlutabréfamarkaður hlutfallslega smár og markaður með fyrirtækjaskuldabréf agnarsmár þrátt fyrir að umgjörð sé í meginatriðum sambærileg og því gott svigrúm til vaxtar.
Stór skref sem stigin hafa verið í afnámi hafta gefa svo færi á vexti íslenskra fyrirtækja erlendis og gera fyrirtækjum og fjárfestum kleift að dreifa og draga úr áhættu. Að sama skapi opnast augu sífellt fleiri erlendra fjárfesta fyrir þátttöku í íslensku atvinnulífi og í uppbyggingu íslenskra innviða þrátt fyrir þær takmarkanir sem enn eru til staðar.
Það hefur verið stefna Arion banka að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar fjármálamarkaða hér á landi. Sterk staða, sem m.a. endurspeglast í sterkri markaðshlutdeild og breiðu þjónustuframboði, hvílir á þeirri stefnu og hæfu og reyndu starfsfólki. Fjárfestingarbankasvið Arion banka byggir á góðum grunni og stefnir að því að viðhalda sinni sterku markaðsstöðu.
Viðskiptabankasvið
Á viðskiptabankasviði Arion banka fá einstaklingar sem og lítil og meðalstór fyrirtæki vandaða fjármálaþjónustu sem veitt er í útibúum bankans um land allt, en bankinn starfrækir 24 útibú og afgreiðslur auk þjónustuvers. Megináhersla er lögð á að mæta þörfum viðskiptavina bankans með fjölbreyttu vöruframboði og faglegri fjármálaráðgjöf. Alls voru 358 stöðugildi hjá sviðinu í lok árs 2016. Framkvæmdastjóri sviðsins er Helgi Bjarnason.
Í útibúum og þjónustuveri er boðið upp á fjölbreytta þjónustu, varðandi t.d. inn- og útlán, sparnað, greiðslukort, lífeyrissparnað, tryggingar, verðbréf og sjóði. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að breikka vöruframboð og veita útibúum bankans auknar útlánaheimildir og færa þannig ákvörðunarvald nær viðskiptavinum okkar.
Helstu verkefni ársins
Helstu verkefni undanfarinna ára hafa tengst innleiðingu straumlínustjórnunar með það að markmiði að bjóða enn betri bankaþjónustu. Rödd viðskiptavina er gert hátt undir höfði og lögð áhersla á að tryggja að athugasemdir viðskiptavina berist til lykilaðila í bankanum og séu hafðar í huga við þróun vöru og þjónustu. Einnig hefur verið lögð áhersla á að auka þekkingu og færni starfsfólks sem og þróun á vörum bankans, bæði í útibúum og í netbanka og appi. Unnið hefur verið að aukinni skilvirkni í starfseminni með fækkun útibúa og minni yfirbyggingu í útibúanetinu.
Helstu verkefni undanfarinna ára hafa tengst innleiðingu straumlínustjórnunar með það að markmiði að bjóða enn betri bankaþjónustu
Línur hafa verið lagðar varðandi nýja útfærslu og hönnun útibúa og hafa sex útibú nú þegar verið færð í nýtt útlit. Á næstu misserum mun fara fram breyting á fleiri útibúum. Þessi nýja útfærsla styður við áherslu bankans á virðisaukandi þjónustu starfsfólks í útibúum og hraðþjónustuleiðir eins og hraðbanka, netbanka og app. Um leið verður horft til aðgerða til að auka hagkvæmni í rekstri útibúa, t.d. með því að fækka fermetrum og gera hraðþjónustuleiðum hærra undir höfði. Til að draga úr vistspori bankans er allt markaðs- og kynningarefni í útibúum rafrænt en ekki prentað.
Þann 1. maí tók bankinn við rekstri allrar bankaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mikil undirbúningsvinna átti sér stað við hönnun á útibúinu og uppsetningu þjónustunnar en bankinn er með útibú bæði í brottfarar- og komusal auk 14 hraðbanka víðsvegar um flugstöðina. Keflavíkurflugvöllur er eitt stærsta markaðstorg landsins og frá opnun hafa verið framkvæmdar um 250 þúsund afgreiðslur í útibúi bankans. Bankinn hefur auk þess boðið upp á nýjungar fyrir ferðamenn ásamt því að íslendingar geta pantað gjaldeyri fyrirfram til að sækja í útibú bankans á leið úr landi og losna þannig við að bíða eftir afgreiðslu.
Þann 1. maí tók bankinn við rekstri allrar bankaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Í október 2016 samþykkti Samkeppniseftirlitið kaup Arion banka á öllu hlutafé í Verði tryggingum sem veitir bankanum spennandi tækifæri til að bjóða viðskiptavinum sínum breiðara vöruframboð. Að bjóða tryggingar sem hluta af fjármálaráðgjöf er tækifæri til að styrkja viðskiptatengsl og auka ánægju viðskiptavina.
Vottaðir fjármálaráðgjafar
Starfsfólk Arion banka er meðvitað um hlutverk sitt og ábyrgð gagnvart viðskiptavinum og samfélaginu sem bankinn starfar í. Meðal annars í því ljósi hefur Arion banki lagt mikla áherslu á þjálfun starfsfólks og útskrifuðust á árinu 6 starfsmenn sem vottaðir fjármálaráðgjafar úr námi sem skipulagt er í samvinnu við Háskólann í Reykjavík. Samtals hafa 54 starfsmenn bankans útskrifast. Með vottuninni er búið að samræma þær kröfur sem gerðar eru til fjármálaráðgjafa og tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi. Þá hefur með þessu verið lagður grunnur að auknu samstarfi við Vörð tryggingar, dótturfélag bankans, með það að markmiði að ráðgjöf tengd líf- og sjúkdómatryggingum verði órjúfanlegur hluti af ráðgjöf tengdri töku íbúðalána.
Með vottuninni er búið að samræma þær kröfur sem gerðar eru til fjármálaráðgjafa og tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi
Þjónusta við lítil og meðalstór fyrirtæki
Arion banki hefur á undanförnum árum stóraukið þjónustu sína við lítil og meðalstór fyrirtæki með því að færa ákvarðanavald til útibúa og samhliða byggja þar upp markvissa atvinnugreinaþekkingu. Útlán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja hafa aukist um 91% frá árinu 2013 og um 5,8% á síðastliðnu ári. Lánasafnið er vel dreift en stærstu atvinnugreinar eru fasteignarekstur og byggingastarfsemi, sjávarútvegur og verslun og heildsala en bankinn er jafnframt með mikla markaðshlutdeild í landbúnaði og verslun og þjónustu.
Útlán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja hafa aukist um 91% frá árinu 2013 og um 5,8% á síðastliðnu ári
Framtíðin er stafræn
Arion banki hefur markað sér þá stefnu að bjóða upp á framúrskarandi stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini. Mikið hefur áunnist í þeim efnum á árinu og má þar nefna sjálfvirkt greiðslumat, nýtt ferli við stofnun viðskipta við bankann, greiðsludreifingu korta í appi og netbanka og sölu og stofnun korta og reikninga á netinu. Appið verður stöðugt betra og vinsælla og er nú svo komið að stór hluti allra einstaklinga sem eiga viðskipti við bankann nota appið að staðaldri. Þróunin er í takt við breyttar venjur og kröfur viðskiptavina með það að markmiði að auðvelda viðskiptavinum lífið, spara þeim akstur í næsta útibú og einfalda og flýta fyrir því að þeir fái þá þjónustu sem þeir óska hvar, hvernig og hvenær sem er.
Þróunin er í takt við breyttar venjur og kröfur viðskiptavina með það að markmiði að auðvelda viðskiptavinum lífið
Áhersla á stafræna þjónustu er því í takt við stefnu bankans um samfélagslega ábyrgð og mikilvægur liður í að draga úr vistspori bankans og viðskiptavina hans. Haldið verður áfram á þessari braut á árinu 2017 og verður fjöldi nýrra stafrænna lausna kynntur til leiks.