Reiknuð afkoma
Reiknuð afkoma Arion banka nam 9.737 milljónum króna á árinu 2016. Hreinar vaxtatekjur og hreinar þóknanatekjur eru fremur stöðugar en meiri sveiflur eru í tekjum af hluta- og skuldabréfaeign. Kostnaðarhækkanir hafa verið nokkuð miklar milli ára og má einkum rekja það til nýrra kjarasamninga sem innihéldu umtalsverðar hækkanir. Þegar horft er til reiknaðrar afkomu leiðréttir Arion banki afkomu sína fyrir söluhagnaði og virðisbreytingum af yfirteknum hlutabréfum í tengslum við fullnustu og endurskipulagningu lána viðskiptavina, áhrifum dótturfélaga sem eru í óskyldum rekstri, einskiptiskostnaði tengdum uppsögnum, aðkeyptri sérfræðiþjónustu og virðisbreytingum útlána. Að teknu tilliti til ofangreinds lækkar afkoma ársins um samtals 12.002 milljónir króna, niður í 9.737 milljónir króna. Reiknuð arðsemi eigin fjár nam 4,7% samanborið við 8,7% 2015. Reiknað kostnaðarhlutfall nam 58,3% á árinu 2016 en var 54,1% 2015.
Rekstrartekjur
Rekstrartekjur námu 53,4 milljörðum króna, samanborið við 86,2 milljarða króna 2015. Meginbreytingin á milli ára er vegna hreinna fjármunatekna og hlutdeildar í afkomu hlutdeildarfélaga en mikill hagnaður var vegna virðisbreytinga og söluhagnaðar eignarhluta á árinu 2015 í tengslum við skráningu og sölu fyrirtækja.
Hreinar vaxtatekjur hækka um 11% milli ára og vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna nam 3,1% á árinu 2016, samanborið við 3,0% 2015. Aukinn vaxtamunur skýrist einkum af meiri vaxtaberandi eignum, þ.e. auknum útlánum og lausafé í stað eignarhluta í félögum.
Hreinar þóknanatekjur lækka um 3% milli ára, en lækkunin er einkum tilkomin vegna óvenjumikilla umsvifa á árinu 2015 á fjárfestingarbankasviði í tengslum við skráningar fyrirtækja í kauphöll og mjög harðrar samkeppni í erlendri greiðslukortastarfsemi dótturfélagsins Valitor. Um 80% af hreinum þóknanatekjum eru frá fyrirtækjum. Valitor jók á árinu mjög umsvif sín á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Fyrirtækið er í örum vexti en jákvæð áhrif á hreinar þóknanatekjur koma ekki fram fyrr en á næstu misserum eins og jafnan er hjá vaxtarfyrirtækjum. Viðskiptabankasvið skilar auknum þóknanatekjum, samanborið við fyrri ár, m.a. vegna útibús bankans sem opnað var á fyrri hluta árs 2016 á Keflavíkurflugvelli.
Hreinar fjármunatekjur námu 5.162 milljónum króna, samanborið við 12.844 milljónir króna 2015. Hagnaður af sölu eignarhlutar Valitor í Visa Europe Ltd. til Visa Inc. nam 5.291 milljón króna á öðrum ársfjórðungi ársins 2016. Afkoma annarrar verðbréfaeignar var með ágætum á seinni hluta ársins sem kemur að hluta á móti neikvæðri afkomu, einkum af hlutabréfum, á fyrri helmingi ársins vegna óhagstæðra markaðsaðstæðna. Móttekinn arður nam 2.280 milljónum króna, samanborið við 7.954 milljónir 2015. Styrking krónunnar skilaði neikvæðum myntgengismun að fjárhæð 1.253 milljónum króna á árinu, sem á einkum uppruna hjá dótturfélögum bankans.
Hreinar tekjur af tryggingastarfsemi námu 1.395 milljónum króna, samanborið við 760 milljónir króna 2015. Aukningin er tilkomin vegna kaupa Arion banka á Verði tryggingum hf. í lok september 2016.
Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga var 908 milljónir króna, samanborið við 29.466 milljónir króna 2015. Matsbreytingar og sala eignarhluta í tengslum við skráningu félaga á árinu 2015 hafði mikil áhrif á uppgjör þess árs en í ár er það söluhagnaður af eignarhlut í Bakkavor Group Ltd. á fyrsta ársfjórðungi sem vegur þyngst.
Aðrar rekstrartekjur hækka um 472 milljónir króna samanborið við 2015 og nema 2.096 milljónum króna 2016. Hækkunina má einkum rekja til hagnaðar af sölu eigna á tímabilinu.
Rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður nam samtals 30.540 milljónum króna, samanborið við 27.811 milljónir króna 2015. Kostnaðarhlutfall var 57,2% samanborið við 32,3% árið 2015. Þessi mikla hækkun kostnaðarhlutfalls skýrist að mestu af háum tekjum af virðisbreytingum hlutabréfa og hagnaði af eignasölu á árinu 2015. Kostnaður sem hlutfall af eignum nam 3,0%, samanborið við 2,9% á árinu 2015.
Laun og launatengd gjöld námu 16.659 milljónum króna og hækkuðu um 12% frá fyrra ári. Þessar hækkanir má einkum skýra með áhrifum af nýjum kjarasamningum og fjölgun starfsmanna en einnig var nokkur kostnaður í tengslum við uppsagnir starfsfólks í 46 stöðugildum í lok þriðja ársfjórðungs 2016. Sé hækkun meðallauna reiknuð milli ára nemur hún 7,1% en launavísitala hækkar um 11,3% á sama tíma. Fjöldi stöðugilda hjá samstæðunni var 1.239 í lok árs sem felur í sér aukningu um 92 stöðugildi á árinu. Skýrist fjölgunin fyrst og fremst af fjárfestingum í nýjum sóknarfærum hér á landi og erlendis. Þar hafa kaupin á Verði tryggingum, aukin umsvif Valitor erlendis og opnun nýs útibús bankans á Keflavíkurflugvelli mest áhrif.
Hrein virðisbreyting
Hrein virðisbreyting var jákvæð sem nemur 7.236 milljónum króna á árinu 2016. Hrein jákvæð virðisbreyting er einkum tilkomin vegna endurmats keyptra íbúðalána á þriðja ársfjórðungi.Skattar
Tekjuskattur nam 6.410 milljónum króna samanborið við 3.135 milljónir króna árið 2015. Tekjuskattur, eins og hann er settur fram í ársreikningi, samanstendur af 20% tekjuskatti af hagnaði og 6% sérstökum fjársýsluskatti sem lagður er á hagnað fjármálafyrirtækja umfram einn milljarð króna. Virkt tekjuskattshlutfall er 23,5% samanborið við 6,0% á árinu 2015. Lágt tekjuskattshlutfall 2015 skýrist einkum af óskattskyldum tekjum sem tilkomnar voru vegna hagnaðar og virðisbreytinga af hlutabréfaeign, sem ekki eru skattskyldar hjá fyrirtækjum. Heildarskattar eru sem fyrr hærri en hjá öðrum fyrirtækjum sem starfa í íslensku efnahagsumhverfi. Skattar sem bankinn greiðir sérstaklega sem fjármálafyrirtæki eru samtals ríflega 5 milljarðar króna.
Bankaskattur og aðrir skattar. Til viðbótar við tekjuskatt greiða bankar á Íslandi þrjá sérstaka skatta sem einungis eru lagðir á fjármálafyrirtæki. Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki er 0,376% af skuldum yfir 50 milljörðum króna og nam 2.872 milljónum króna samanborið við 2.818 milljónir króna árið 2015. Sérstakur fjársýsluskattur er 6% af tekjuskattsstofni yfir 1 milljarði króna og nam 1.395 milljónum króna samanborið við 628 milljónir króna árið 2015. Fjársýsluskattur er 5,5% af launum starfsmanna bankans (á einnig við öll dótturfélög bankans að frátöldu Landey) og nam 776 milljónum króna samanborið við 689 milljónir króna árið 2015.
Efnahagsreikningur
Heildareignir samstæðu Arion banka aukast lítillega frá áramótum eða um 2%. Helstu breytingar má rekja til aukningar innstæðna hjá Seðlabanka og aukningar útlána en á móti lækka lán til lánastofnana, eignarhlutir í hlutdeildarfélögum sem og verðbréfaeign.
Lán til viðskiptavina
Lán til viðskiptavina námu 712.422 milljónum króna í lok árs 2016. Lán til fyrirtækja hafa aukist um rúm 5% á árinu, eða um 19 milljarða króna. Þessi nýju lán eru einkum til félaga í fasteignaviðskiptum og iðnaði, orkuvinnslu og verksmiðjuframleiðslu. Íbúðalán til einstaklinga aukast um 5% á árinu. Gæði útlánasafns bankans halda áfram að aukast. Hlutfall vandræðalána bankans lækkar úr 2,5% í árslok 2015 í 1,6% í árslok 2016 en vandræðalán eru skilgreind sem bókfært virði lána sem komin eru í 90 daga vanskil og lána sem talin eru þurfa sértæka niðurfærslu. Þegar horft er til hlutfalls lána bankans sem hafa verið niðurfærð var það hlutfall 3,2% í árslok 2016 og hafði lækkað úr 4,7% í árslok 2015.
Lánasafn samstæðunnar er vel dreift. Um helmingur þess er lán til einstaklinga og hinn helmingurinn er til fyrirtækja í hinum ýmsu atvinnugreinum og er skiptingin í takt við samsetningu íslenska efnahagsumhverfisins.
Verðbréfaeign
Verðbréfaeign nam 117.456 milljónum króna í árslok 2016, samanborið við 133.191 milljón króna í árslok 2015. Verðbréfaeign lækkar bæði vegna sölu eigna, m.a. sölu á eignarhlutum í Visa Europe Ltd., sem og lækkunar bréfa á mörkuðum. Breytingar á verðbréfaeign má einnig að nokkru rekja til lausafjárstýringar bankans.
Fjárfestingar í hlutdeildarfélögum
Eignarhlutir í hlutdeildarfélögum lækka verulega frá áramótum sem að mestu má rekja til sölunnar á eignarhlut í Bakkavor Group Ltd. í janúar 2016. Eignarhlutar í hlutdeildarfélögum í dag eru nær eingöngu tengdir kjarnastarfsemi bankans og þá einkum í upplýsingatækni.
Skuldir og eigið fé
Skuldir samstæðu Arion banka hækka nokkuð frá áramótum og er það einkum ný lántaka sem skýrir þá hækkun. Eigið fé hækkar vegna afkomu ársins. Minnihluti lækkar vegna lækkunar á hlutafé og arðgreiðslu dótturfélagsins BG12 ehf. og vegna sölu á stórum hluta eignarhlutar bankans í dótturfélaginu Kolufelli ehf. á árinu.
Innlán
Heildarinnlán námu 420.051 milljónum króna í árslok sem er lækkun frá fyrra ári þegar þau voru 480.734 milljónir í árslok.Lántaka
Lántaka bankans nam 339.476 milljónum króna í árslok. Í janúar 2016 gerðu Arion banki og Kaupþing með sér samkomulag um að Kaupþing breytti innstæðum sínum hjá bankanum í erlendum gjaldeyri í EMTN útgáfu í USD og jafnframt að Kaupþing greiddi upp veðtryggt lán Arion banka hjá Seðlabanka Íslands í erlendum myntum, sem stóð í 56 milljörðum króna í árslok 2015. Heildarútgáfan nam 97 milljörðum króna (USD 747 milljónir) og á útgáfunni var sú endurgreiðslukvöð á Arion banka að ef bankinn færi í erlenda útgáfu sem samsvaraði hærri fjárhæð en USD 165 milljónum færi hluti til endurgreiðslu á skuldabréfi Kaupþings. Arion banki fór tvívegis í útgáfu sem fór fram úr þessum viðmiðum og nam endurgreiðslan 57 milljörðum króna á árinu (USD 490 milljónir). Útistandandi skuldabréf í eigu Kaupþings í árslok 2016 nam 29,3 milljörðum króna (USD 258 milljónir).
Arion banki gaf út þriggja ára 300 milljóna evra skuldabréf í apríl og annað fimm ára 300 milljóna evra skuldabréf í nóvember, sem hafa selst á hagstæðu verði á eftirmarkaði, líkt og önnur skuldabréf útgefin af bankanum. Bankinn hefur einnig haldið áfram útgáfu sértryggðra skuldabréfa á íslenska markaðnum og gaf út samtals 24,8 milljarða króna á árinu 2016.
Víkjandi lán
Víkjandi lán bankans voru að fullu greidd upp í lok þriðja ársfjórðungs. Um það bil tveir þriðju hlutar víkjandi lána höfðu verið greiddir upp á árinu 2015 og var það sem eftir stóð greitt upp að fullu í kjölfar vel heppnaðrar skuldabréfaútgáfu bankans á erlendum mörkuðum.
Eigið fé
Eigið fé hluthafa bankans nam 211.212 milljónum króna í lok árs 2016 samanborið við 192.786 milljónir króna í lok árs 2015. Hækkunin skýrist af afkomu ársins. Hlutfall eiginfjárþáttar A hjá bankanum nam 26,5% í árslok 2016 samanborið við 23,4% í árslok 2015. Engin arðgreiðsla var til hluthafa á árinu 2016. Stjórn bankans leggur til að hagnaður ársins verði færður meðal eiginfjár og að enginn arður verði greiddur á árinu 2017 vegna uppgjörsársins 2016, að svo stöddu. Stjórn bankans hefur víðtæka heimild til að leggja fram tillögu um arðgreiðslu eða aðra ráðstöfun eigin fjár og því mun stjórnin mögulega boða til aukahluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um slíka ráðstöfun yrði lögð fyrir.