Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor´s (S&P) hækkaði lánshæfismat bankans úr BBB- í BBB í október með jákvæðum horfum. Með auknu aðgengi að alþjóðlegum fjámálamörkuðum hefur bankinn haldið áfram að auka fjölbreytni í fjámögnun. Bankinn lauk við tvær skuldabréfaútgáfur í evrum á árinu. Í apríl gaf Arion banki út skuldabréf að upphæð 300 milljónir evra. Í desember gaf bankinn út skuldabréf í evrum að upphæð 300 milljónir evra til breiðs hóps fjárfesta. Útgáfan var stækkuð um 200 milljónir evra í byrjun árs 2017 og er heildarútgáfan 500 milljónir evra. Skuldabréfaútgáfan var sú stærsta og lengsta sem íslenskur banki hefur ráðist í á undanförnum árum og markaði tímamót í aðgengi íslenskra banka að erlendum fjármálamörkuðum.
Fjármögnun
Stærstur hluti fjármögnunar bankans er í formi innlána frá viðskiptavinum. Á síðustu misserum hefur bankinn stigið afgerandi skref til að auka fjölbreytni fjármögnunarkosta, meðal annars með útgáfu skuldabréfa í evrum og öðrum gjaldmiðlum. Á innlendum markaði hefur bankinn haldið áfram að gefa út sértryggð skuldabréf og víxla.
EMTN útgáfur
Í byrjun árs 2016 lauk bankinn samningum við Kaupþing um fjármögnun. Samningurinn kvað á um útgáfu Arion banka á skuldabréfi að fjárhæð $747,5 milljónir eða um 97 milljarða króna. Skuldabréfið er til sjö ára, en er uppgreiðanlegt á vaxtagjalddögum fyrstu tvö árin. Skuldabréfið ber fljótandi LIBOR vexti að viðbættu 2,6% álagi fyrstu tvö árin og mun vaxtaálagið að þeim tíma liðnum taka mið af markaðskjörum. Skuldabréfið kom til skuldajöfnunar á láni í erlendum myntum, sem bankinn var áður með hjá Seðlabanka Íslands en var komið í eigu Kaupþings, og innlána Kaupþings hjá Arion banka í erlendum myntum. Útgáfan var liður í aðgerðum sem snéru að Kaupþingi og miðuðu að afnámi fjármagnshafta og tilkynnt var um af fjármála- og efnahagsráðuneytinu 8. júní 2015. Arion banki greiddi samtals $490 milljónir af skuldabréfinu til baka á árinu. Eftirstöðvar skuldabréfsins við árslok voru samtals $257,6 milljónir.
Í apríl gaf Arion banki út skuldabréf að upphæð 300 milljónir evra eða sem nemur um 42 milljörðum íslenskra króna. Um var að ræða aðra útgáfu Arion banka í evrum sem seld er til breiðs hóps fjárfesta. Í heild bárust tilboð frá yfir 70 fjárfestum fyrir rúmlega 500 milljónir evra. Skuldabréfin eru til þriggja ára og bera fasta 2,5% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 2,70% álagi á millibankavexti.
Í desember gaf Arion banki út skuldabréf til fimm ára að upphæð 300 milljónir evra eða sem nemur um 36 milljörðum króna. Í heild bárust tilboð frá yfir 50 fjárfestum fyrir rúmlega 400 milljónir evra. Skuldabréfin bera fasta 1,625% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 1,65% álagi á millibankavexti. Í byrjun árs 2017 var útgáfan stækkuð um 200 milljónir evra á kjörum sem jafngilda 1,55% álagi á millibankavexti og er því heildarútgáfan 500 milljónir evra eða sem nemur um 60 milljörðum króna.
Á árinu lauk bankinn minni skuldabréfaútgáfum í NOK, SEK og fleiri gjaldmiðlum undir EMTN prógrammi bankans að fjárhæð 13.8 milljarðar króna.
Á árinu var víkjandi lán frá íslenska ríkinu greitt niður að fullu, samtals um 10 milljarðar króna. Til niðurgreiðslunnar voru að hluta til notaðir fjármunir sem fengust úr skuldabréfaútgáfum bankans í erlendum myntum. Við niðurgreiðslu víkjandi láns lækkaði vaxtakostnaður bankans talsvert þar sem víkjandi lánið bar frá byrjun árs 2015 fljótandi LIBOR/EURIBOR vexti að viðbættu 5% álagi.
Hækkun á lánshæfismati
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor´s (S&P) hækkaði lánshæfismat Arion banka úr BBB- í BBB með jákvæðum horfum. Bætt lánshæfismat endurspeglar góða stöðu íslensks efnahagslífs, bætta skuldastöðu heimila og fyrirtækja og jákvæð áhrif af frekari losun fjármagnshafta. Einnig horfði S&P til greiðari aðgangs Arion banka að erlendum lánsfjármörkuðum og bættrar eiginfjárstöðu bankans í kjölfar sölu á hlutum í yfirteknum félögum.
Lánshæfismat Arion banka og íslenska ríkisins gefið út af S&P
Flokkur | Arion banki |
Íslenska ríkið* |
---|---|---|
Langtímaeinkunn (Long term) | BBB | A- |
Skammtímaeinkunn(Short term) | A-2 | A-2 |
Horfur (Outlook) | Jákvæðar |
Stöðugar |
Útgáfudagur (Last rating action) | 25. október 2016 | 13. janúar 2017 |
*Lánshæfi í erlendri mynt. Nánari upplýsingar á www.sedlabanki.is.
Útgáfa sértryggðra skuldabréfa og víxla
Arion banki hélt áfram útgáfu sinni á sértryggðum skuldabréfum sem tryggð eru samkvæmt lögum nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf. Á árinu voru gefin út sértryggð skuldabréf fyrir 24.840 milljónir króna. Í desember var gefinn út nýr óverðtryggður flokkur ARION CB 19.
Arion banki endurnýjaði samninga við Kviku, Íslandsbanka og Landsbankann um viðskiptavakt á sértryggðum skuldabréfum á Nasdaq Íslandi útgefnum af Arion banka. Tilgangur samninganna er að efla viðskipti með markflokka sértryggðra skuldbréfa útgefnum af bankanum.
Bankinn hefur haldið áfram útgáfu víxla á innlendum markaði, en útgáfa víxla hefur aukið enn frekar fjölbreytni í fjármögnun bankans. Alls voru gefnir út víxlar að fjárhæð 23.460 milljónir á árinu 2016. Útistandandi víxlar við árslok voru samtals 13,8 milljarðar króna.
Lausafjárstaða og lausafjáráhætta
Bankinn er fjármagnaður að hluta með innlánum frá einstaklingum, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Eitt af meginmarkmiðum Arion banka er að viðhalda sterku lausafjárþekjuhlutfalli (e. liquidity coverage ratio, LCR) sem er reiknað samkvæmt reglum Seðlabankans. LCR tekur mið af evrópskum lausafjárreglum sem byggja á Basel III staðlinum og tekur á áhættuþáttum sem snerta hvikleika innlána og tímamisvægi eigna og skulda. Í árslok var lausafjárþekjuhlutfall bankans 171% og fyrir erlenda gjaldmiðla var hlutfallið 263%, sem er vel yfir þeim mörkum sem reglur Seðlabankans kveða á um.
Óvissu hefur að mestu verið eytt í tengslum við losun fjármagnshafta. Í kjölfar efnda stöðugleikasamninga á síðasta ári eru innlán kvikra erlendra aðila og fjármálastofnana í slitameðferð hverfandi lítill þáttur í fjármögnun bankans. Lausafjáreignir bankans í lok árs 2016 námu 182.712 milljónum króna eða um 18% af heildareignum.
Fjármögnunarhlutfall bankans (e. Net Stable Funding Ratio, NSFR) var 124% í árslok 2016 og 191% í erlendum gjaldmiðlum. Hlutfallið vegur tiltæka stöðuga fjármögnun bankans gagnvart nauðsynlegri stöðugri fjármögnun samkvæmt aðferð sem tekur m.a. tillit til seljanleika eigna og gjalddaga skulda. Hlutföllin sýna að fjármögnun bankans er stöðug.