Hjá Arion banka er lögð áhersla á að skapa starfsumhverfi sem einkennist af fagmennsku, metnaði, framsækni og umfram allt góðri samvinnu á milli sviða, starfsstöðva og einstaklinga. Stefna Arion banka er að hámarka mannauð sinn með því að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum og vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir konur jafnt sem karla. Bankinn hefur hlotið jafnlaunavottun VR og starfar samkvæmt henni.
Ávallt er leitast við að gera betur í dag en í gær og er rík áhersla lögð á stöðugar umbætur og frumkvæði starfsfólks í að bæta starfsemina. Hjarta starfseminnar er mannauður Arion banka og kappkostar bankinn að hlúa vel að starfsfólki sínu.
Fjölbreyttur hópur starfsfólks
Hjá Arion banka starfar fjölbreyttur hópur fólks sem hefur víðtæka reynslu og þekkingu af ýmsum sviðum samfélagsins og margvíslega menntun.
Í upphafi árs 2016 voru 927 starfsmenn hjá bankanum í 876 stöðugildum. Alls voru 945 starfsmenn í 869 stöðugildum í lok árs 2016 hjá bankanum, þar af 65% konur og 35% karlar. Nýráðningar voru 67 á árinu, þar af voru 64% konur og 36% karlar. Starfsmannavelta var 13,8% en til samanburðar var veltan 10% árið 2015.
Á árinu 2016 fækkaði stöðugildum hjá bankanum um 7. Á sama tíma var útibú bankans í Keflavik opnað, þar sem nú starfa 49 starfsmenn í 30 stöðugildum. Raunfækkun stöðugilda á árinu nemur því 37 stöðugildum.
Aldursdreifing er fremur jöfn. Meðalaldur starfsfólks Arion banka er 42 ár. Meðalstarfsaldur er 10,5 ár hjá bankanum en jafnframt er fjöldi starfsmanna sem hafa starfað hjá bankanum og forverum hans í mun lengri tíma, allt að 45 ár.
Fræðsla og starfsþróun
Rík áhersla er lögð á að styrkja og þróa þekkingu og hæfileika starfsfólks með markvissri fræðslu og endurmenntun. Boðið er upp á fjölbreytt framboð námskeiða og fræðslufunda með það að markmiði að efla og þróa starfsfólk í starfi. Í lok árs var innleitt rafrænt fræðslukerfi fyrir starfsfólk Arion banka til að auka við fjölbreytni námsleiða og tryggja að viðeigandi fræðsla sé í boði á þeim tíma sem hentar hverjum og einum. Lögð er áhersla á að starfsfólk fái tækifæri til að efla faglega og persónulega hæfni sína auk þess sem krafa er gerð um að starfsfólk hafi haldgóða þekkingu á þeim lögum og reglum sem lúta að hlutverki þess. Starfsfólk er hvatt til að sýna frumkvæði í að viðhalda og bæta við þá þekkingu og hæfni sem er nauðsynleg til að þróast og þroskast í starfi. Fræðslustarfið er í anda þeirrar umbótastefnu sem unnið er eftir, þ.e. að vilja gera betur í dag en í gær.
- Áhersla hefur verið lögð á að styrkja stjórnendur í leiðtogastarfi þeirra. Sú vegferð hófst árið 2014 og stendur enn.
- Á árinu 2016 stunduðu 28 starfsmenn nám til löggildingar í verðbréfamiðlun, en 89 starfsmenn bankans hafa þegar lokið umræddu námi.
- Á árinu 2012 var fyrst boðið upp á nám á vegum fjármálafyrirtækja á Íslandi fyrir fjármálaráðgjafa einstaklinga, en náminu er ætlað að efla þjónustu við viðskiptavini. Í dag starfa 53 vottaðir fjármálaráðgjafar hjá Arion banka en 7 til viðbótar munu ljúka náminu vorið 2017.
- Meðalkostnaður vegna aðkeyptrar fræðslu og endurmenntunar starfsfólks var 117.000 krónur á starfsmann árið 2016.
Mannauðsstefna
Við erum stolt af vinnustað okkar og vinnum stöðugt að því að bæta árangur okkar og þjónustu við viðskiptavini. Arion banki er tengslabanki og við leggjum okkur fram um að byggja upp sterk tengsl við viðskiptavini og samstarfsfólk okkar til langs tíma. Við vinnum af fagmennsku og leitumst við að hugsa í lausnum. Við sýnum sveigjanleika, framsækni og áræðni í öllum okkar verkum.
Mannauður er stefnumiðaður samherji og styður stefnu bankans með áherslu á leiðtoga, starfsþróun, frammistöðu, velferð starfsfólks og umbótamenningu.
Jafnréttismál
Arion banki hefur sett sér skýra stefnu um að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum. Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis er í andstöðu við jafnréttisstefnu bankans sem og jafnréttislög. Bankastjóri ber ábyrgð á framgangi jafnréttismála innan bankans en í hans umboði starfar jafnréttisnefnd skipuð fulltrúum starfsfólks.
Arion banki starfar eftir aðgerðaráætlun í jafnréttismálum. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum starfsfólks óháð kyni. Aðgerðaáætlunin var endurskoðuð á árinu 2016 og mælikvarðar uppfærðir. Áætlunin tekur til víðtækra þátta svo sem réttar til starfa, kjara, starfsþróunar og setu í nefndum og starfshópum. Verkefnum jafnréttisnefndar er skipt upp í átta efnisflokka: Launajafnrétti, jafnrétti í nefndum, laus störf, vinnuhópar, starfsþjálfun og endurmenntun, jafnréttisfræðsla, samræming fjölskyldu- og atvinnulífs, einelti og kynbundin/kynferðisleg áreitni.
Frá árinu 2014 hefur bankinn verið aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttissáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein, og snúa viðmiðin fyrst og fremst að kynjajafnrétti.
Arion banki hlaut Jafnlaunavottun VR á árinu 2015. Arion banki varð þar með stærsta og fjölmennasta fyrirtækið til að hljóta vottunina og jafnframt fyrsti íslenski bankinn. Jafnlaunavottun VR felur í sér ítarlega úttekt á launum starfsfólks, starfaflokkun og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kjör.
Jafnlaunastefna
Arion banki fylgir lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, sem og öðrum reglum og lögum um að konum og körlum sé ekki mismunað og að einstaklingar skuli fá greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.
Til þess að styðja við jafnlaunastefnuna fer bankinn eftir íslenska staðlinum ÍST 85:2012 um jafnlaunakerfi en samkvæmt staðlinum skulu launaviðmið vera fyrirfram ákveðin og hvorki fela í sér beina eða óbeina kynbundna mismunun, né heldur mismunun á grundvelli annarra þátta svo sem kynþáttar, kynhneigðar, trúarbragða eða þjóðernis. Stefna þessi skal ná til alls starfsfólks.
Bankinn stóðst tvær úttektir á árinu sem felur í sér staðfestingu á að bankinn starfi í samræmi við jafnlaunastaðal. Útskýrður launamunur lækkaði á milli ára úr 4,8% í 3,7%. Markmið bankans er að útskýrður launamunur lækki undir 3% á árinu 2017.
Til þess að tryggja eftirfylgni og stöðugar umbætur skuldbindur bankinn sig til að setja sér jafnlaunamarkmið og láta framkvæma launagreiningar, innri og ytri úttektir, rýna í niðurstöður úttekta og gera umbætur þegar þess er þörf.